Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, óháður þingmaður, tóku fyrir Landsréttarmálið í umræðum um störf þingsins í dag.

Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesti síðasta þriðjudag dóm réttarins í Landsréttarmálinu í fyrra um að íslenska ríkið hafi brotið í bága við ákvæði Mannréttindasáttmálasn með því að hafa ekki skipað dómara við Landsrétt í samræmi við landslög.

Brotin áttu sér stað þegar skipað var í Landsrétt í fyrsta sinn, en að mati dómsins gerðist Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, brotleg við reglurnar sem um skipunina giltu með því að hafa tekið fjögur dómaraefni af lista hæfnisnefndarinnar og sett önnur dómaraefni inn í staðinn án þess að leggja sjálfstætt mat á eða afla frekari gagna um dómarareynslu þeirra sem fjarlægð voru.

Þrír af þeim fjórum dómurum, sem Landsréttarmálið snýst um, hafa verið endurkipaðir. Björn Leví spurði hvort borgarar landsins eigi ekki rétt á dómurum og dómstólum sem hægt er að treysta á.

„Hversu vel treystir þú dómurum sem þú veist að komust þangað með pólitískum bolabrögðum? Hversu vel treysti þeim dómurum sem sitja í bláum sætum? Hvernig er dómgreind þeirra dómara sem sitja í þessum blámáluðu sætum sem vita að allt sem þau gera litast af málningunni á stólum þeirra, sama hversu heiðarlega þau rækja störf sín,“ sagði þingmaðurinn og bætti við að það væri augljóst að dómararnir ættu að víkja.

Rósa Björk sagði dóminn hafa gríðarlegt fordæmisgildi fyrir öll aðildarríki Evrópuráðsins þegar kemur að pólitískum skipunum í dómstóla, sérstaklega fyrir Ungverjaland, Pólland og fleiri Austur-Evrópuríki.

„Það er ekki gaman fyrir Ísland sem rótgróið lýðræðisríki að skipa sér í hóp óþroskaðra lýðræðisríkja eins og sum fyrrum ríkja Sovétríkjanna eru. Það er vissulega slæmt fyrir Ísland að fá á sig áfellisdóm um að það sé það að það sé verið að brjóta á grundvallarreglum í mannréttindasáttmálanum, eins og formaður Lögmannafélagsins sagði í fjölmiðlum í gær. Hún og fleiri og þar með talin sú sem hér stendur, hafa kallað eftir því að ríkisstjórnin bregðist skýrt við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins og geri viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig,“ sagði Rósa og ítrekaði mikilvægi þess að fara yfir mál sem heyra undir dómara sem voru ranglega skipaðir.

Rósa hvatti ríkisstjórn Íslands til að hætta öllu túlkunarstríði og bregðast við af ábyrgð og auðmýkt gagnvart dómnum.

Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, sagði niður­stöðu MDE nú mun skýrari en þá fyrri í Lands­réttar­málinu. Hún segist ekki sjá eftir því að ríkis­stjórnin hafi á­kveðið að leita til yfir­réttarins, og segist ekki telja niður­stöðuna setja Lands­rétt á hliðina. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði niðurstöðu MDE valda vonbrigðum en að nauðsynlengt hafi verið að eyða allri óvissu um Landsrétt. Hún ítrekar þó að dómar MDE haggi ekki sjálf­krafa úr­lausnum og túlkun ís­lenskra dóm­stóla.