Ríkisstjórn Tonga gaf í dag fyrstu yfirlýsingu sína eftir sprengigosið þann 15. janúar í eldfjallinu Hunga Tonga-Hunga Ha'apai og flóðbylgjunni sem því fylgdi.
Ríkisstjórnin segir að eyjaríkið hafi orðið fyrir fordæmalausum hamförum. Staðfest er að þrjár manneskjur hafa látist, þar af tveir heimamenn og ein bresk kona.
Í yfirlýsingunni segir að sum minni eyjanna hafi orðið sérstaklega illa úti. Á einni eyjunni hafi öll hús eyðilagst og á annarri voru aðeins tvö hús eftir.
Illa gengur að veita neyðaraðstoð þar sem aska fellur en til frá eldfjallinu. Sjálfboðaliðar hafa unnið að því að sópa flugbrautina á aðalflugvellinum til að flugvélar geti lent með vatn og birgðir fyrir eyjarnar.
Samband við umheiminn rofnaði eftir að eini neðansjávarstrengur Tonga skarst í sundur í eldgosinu. Ríkisstjórnin segir að internet liggi allt niðri en að sum símakerfi innanlands virki enn og unnið sé að því að laga sambandið.
Þá er brottflutningur hafinn af þeim eyjum sem urðu mest fyrir áhrifum af eldgosinu.