„Ég met það þannig að þetta verði ríkisstjórn sem verður enn þá meira „woke“ en áður. Verði mest „woke“-ríkisstjórn sem mun elta tíðarandann frekar en að leiða,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Sigmundur er búinn að sofa á úrslitunum og segist búast við að ríkisstjórnin haldi áfram. Stjórnarliðar hafi gefið það út fyrir kosningar. Hann segir það samstarf verða eins og landsmenn ættu að þekkja af síðustu fjórum árum. Það verði uppskrift að þjóðgarði og flokkarnir muni ausa peningum í loftslagsmál, þó með óljósum hætti, og þá verði Borgarlínan á dagskrá.

Þegar teikniborðið er skoðað sést að hægt er að mynda þriggja flokka stjórn og Miðflokkurinn kæmi inn í staðinn fyrir VG með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.

„Hvað það varðar heldur maður sig við það sem ég sagði fyrir kosningar. Hjá okkur skipta málefnin máli, ef þeir vilja færa sig í átt að því sem ég kalla skynsemishyggju þá erum við reiðubúin að taka þátt í því. En mér sýnist þau vera að halda áfram með sitt prógramm.“

Sigmundur segir að margt hafi komið sér á óvart í niðurstöðum laugardagsins.

„Árangur okkar kom mér á óvart. Ég hafði talið að kannanir myndu ekki sýna niðurstöðuna eins og hún varð. Ég hélt að við myndum fá meira en kannanir sýndu en það fór í öfuga átt. Það var líka margt annað sem fór öðruvísi en spáð var.“

Hann segir það staðreynd að viðhorf til stjórnmála fari yfirleitt meira eftir tilfinningu en máli og rökum.

„Nema ef það breytist rétt fyrir kosningar. Þá snýst þetta meira um stefnu og það sem flokkar hafa framkvæmt. Þveröfugt núna, meira um tilfinningar en áður þegar kom að kjördegi. Þeir sem höfðu náð að fanga tíðarandann, þeir eða auglýsingaskrifstofa, nutu góðs af því.“