Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, skilaði inn stjórnarumboði sínu í dag og ríkisstjórn Rússlands hefur sagt af sér. Þetta kemur fram á vef breska blaðsins Independent.

Samkvæmt frétt Independent er talið að Medvedev hafi ákveðið að segja af sér í ljósi fyrirhugaðra breytinga Vladimir Putins á stjórnarskrá Rússlands. Talið er að Pútín vilji með breytingunum gera sér kleyft að sitja lengur á valdastól, en samkvæmt núverandi stjórnarskrá þarf hann að láta af völdum árið 2024.

Putin þakkaði Medvedev fyrir samstarfið en bætti við að það hefði ekki alltaf gengið vel.

Staðan í rússneskum stjórnmálum er verulega óljós eftir fréttirnar en Medvedev hafði verið talinn líklegur arftaki Putins, þegar sá síðarnefndi neyddist til að láta af völdum árið 2024. Medvedev var forseti Rússlands frá 2008 til 2012.

Í frétt Independent segir að talið sé að Putin muni skipa Medvedev í öryggisráð sitt.