Af tólf ráðherrum eru tíu frá Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi. Hinir koma frá Akranesi og Syðra-Langholti, hvoru tveggja í klukkutíma akstursfjarlægð frá borginni.

„Ég man ekki eftir að þetta hafi verið svona ójafnt,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskólann á Akureyri, en í fyrsta skipti á Norðausturkjördæmi ekki ráðherra.

Grétar telur að þingreynsla gæti hafa skipt máli, til að mynda hjá Framsóknarflokknum þar sem þrír ráðherrar eru af höfuðborgarsvæðinu. Það muni falla í skaut þingmanna að halda uppi sjónarmiðum landsbyggðarinnar.

Hann segir hina skökku skiptingu umtalaða fyrir norðan. „Kannski er þetta leið þingsins til að rétta ójafnt vægi atkvæða milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðar. Með því að snúa þessu á haus þegar valið er í ríkisstjórn,“ segir hann hæðnislega.

Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðiprófessor við Háskólann á Akureyri.
Fréttablaðið/Auðunn