Ríkisstjórn Stefan Löfven er fallin eftir að meirihluti sænska þingsins samþykkti tillögu um vantraust gegn forsætisráðherranum. 181 þingmenn samþykktu en nóg hefði verið ef 175 hefðu samþykkt tillöguna.

Löfven ætlar að halda blaðamannafund klukkan 11:30 að staðartíma, klukkan 9:30 að íslenskum tíma. Mun þar koma fram hvort Löfven hyggst segja af sér eða hvort boðið verður til kosninga eða komist að pólitískri málamiðlun.

Þingmenn greiddu í morgun atkvæði um vantrauststillögu Svíþjóðardemókrata á hendur Stefan Löfven forsætisráðherra en vitað var fyrirfram að meirihluti myndi samþykkja tillöguna að því er fram kemur á vef SVT, sænska ríkissjónvarpsins.

Málið varðar heita deilu um afléttingu á þaki á húsaleigu nýbygginga. Ríkisstjórn Löfven ákvað að leyfa markaðnum að ráða för en stjórnarandstaðan segir að með þessari ákvörðun hafi ríkisstjórnin svikið húsnæðisstefnu Svía, „sænsku leiðina“ svokölluðu.

Eftir þingkosningarnar í Svíþjóð árið 2018 tók marga mánuði að mynda nýja stjórn.

Stefan Löfven var sam­þykktur af sænska þinginu sem for­sætis­ráð­herra landsins eftir nokkurra mánaða stjórnar­kreppu en brösulega gekk að koma starfhæfri ríkisstjórn saman.

Útlit var fyrir stjórnarkreppu í fyrra eftir að Vinstri-flokkurinn sótti hart að ríkisstjórninni vegna deilna um breytingar á vinnumarkaðslöggjöfinni.