Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, stjórnarflokkur Japans, hélt meirihluta sínum á neðri deild japanska þingsins í kosningum sem haldnar voru í dag. Samkvæmt talningum sem birtar voru síðdegis á sunnudag hafði Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn unnið 253 þingsæti af 465, en flokkurinn hafði áður 276 sæti.

Þrátt fyrir að flokkurinn tapi sætum er því um að ræða mikinn varnarsigur fyrir flokkinn og flokksleiðtogann, nýja forsætisráðherrann Fumio Kishida, þar sem margar skoðanakannanir höfðu spáð því að flokkurinn kynni að tapa hreinum meirihluta sínum. Ef svo hefði farið hefði flokkurinn að öllum líkindum samt haldið völdum en hefði þurft að reiða sig á samstarfsflokka sína í auknum mæli.

Flokkurinn Komeito, sem á í stjórnarsamstarfi við Frjálslynda lýðræðisflokkinn, vann 29 sæti sem er einu sæti lægra en í síðustu kosningum. Alls viðheldur ríkisstjórnin því nógu stórum meirihluta til að stýra öllum þingnefndum og mun því eiga auðvelt með að koma nýjum lögum í gegn.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn hefur stjórnað Japan nánast samfellt frá stofnun sinni árið 1955. Þrátt fyrir öruggan sigur flokksins misstu nokkrir þekktir meðlimir hans þingsæti sín, meðal annars aðalritarinn Akira Amari, sem komst þó inn sem uppbótarþingmaður.