Á morgun mun hollenska ríkis­stjórnin á­kveða hvort hún hyggist segja af sér vegna hneykslis­máls sem skekur þar­lend stjórn­mál og leið­togi Verka­manna­flokksins hefur sagt af sér. Skatt­yfir­völd eru sökuð um að hafa skikkað tugi þúsunda for­eldra til að endur­greiða barna­bætur vegna meintra skatt­svika, með þeim af­leiðingum að margir for­eldrar urðu stór­skuldugir.

Mark Rutte for­sætis­ráð­herra segist mót­fallinn því að slíta stjórnar­sam­starfinu vegna málsins og segir mikil­vægt sem aldrei fyrr að stöðug­leiki sé í hollenskum stjórn­málum meðan CO­VID-19 far­aldurinn gengur yfir. Hann hefur þó ekki úti­lokað af­sögn stjórnarinnar en þing­kosningar eru á dag­skrá í mars. Fari svo að stjórnin segði af sér myndi hún starfa sem utan­þings­stjórn fram að kosningum.

Lodewijk Asscher sagði af sér sem leið­togi Verka­manna­flokksins vegna hneykslisins en hann var fé­lags­mála­ráð­herra og vara­for­sætis­ráð­herra 2012 til 2017. Rutte leiddi einnig þá ríkis­stjórn.

Lodewijk Asscher fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokksins.
Fréttablaðið/EPA

Í desember kom út skýrsla þing­manna um málið sem bar yfir­skriftina „For­dæma­laust ó­rétt­læti“. Hún var af­rakstur rann­sóknar á því þegar skatt­yfir­völd kröfðu um 20 þúsund barna­fjöl­skyldur um endur­greiðslu á barna­bótum frá árinu 2012 vegna meintra skatt­svika.

Þeim var svo meinað að á­frýja úr­skurðinum. Meðal þess sem skatturinn sagði sanna skatt­svik voru rang­lega út fyllt eyðu­blöð og þau ekki undir­rituð. Þetta hafði þær af­leiðingar að margar fjöl­skyldur þurftu að endur­greiða tugi þúsunda evra til skattsins og í ein­hverjum til­fellum gerði þetta að verkum að hjóna­bönd enduðu með skilnaði.

Rannsökuðu sérstaklega fjölskyldur með tvöfalt ríkisfang

Skatt­yfir­völd hafa auk þess viður­kennt að hafa ein­beitt sér sér­stak­lega að fólki úr fjöl­skyldum með tvö­falt ríkis­fang. Sak­sóknarar í Hollandi ætla hins vegar ekki að rann­saka hvort um mis­munun á grund­velli þjóð­ernis sé að ræða, þar sem ekkert bendi til þess að nokkuð sak­næmt hafi átt sér stað.

Ríkis­stjórnin hefur til­kynnt að hún hafi sett til hliðar meira en 500 milljónir evra til greiðslu skaða­bóta, um 30 þúsund evrur fyrir hverja fjöl­skyldu, tæpar 4,7 milljónir króna. Alls hafa 20 fjöl­skyldur höfðað mál gegn ráð­herrum úr þremur af fjórum flokkum í ríkis­stjórn Rutte og saka þá um að hafa brotið gegn réttindum barna og beitt mis­munun.