Ríkisstjóri Týrol-héraðs í Austurríki hefur beðist afsökunar eftir að apres ski veisluhöld í Ischgl áttu stóran þátt í hröðum vexti kórónaveirusmita víðsvegar um Evrópu.

Þýskur blaðamaður spurði Günther Platter afhverju austurrísk stjórnvöld ættu svona erfitt með að viðurkenna mistök sín og steig þá Platter fram og baðst afsökunar.

Fréttablaðið hefur fjallað um að í 25 manna hóp frá Íslandi sem dvaldi í Ischgl hafi sextán aðilar smitast af COVID-19.

Fjórða mars síðastliðinn sendu íslensk heilbrigðisyfirvöld skilaboð til Austurríkis þar sem varað var við að það væru komin smit til Íslands sem mætti rekja til austurríska skíðasvæðisins.

Degi síðar funduðu heilbrigðisyfirvöld á staðnum um stöðu mála og ákváðu að hlusta ekki á viðvaranir íslenskra heilbrigðisyfirvalda.

Rúmlega sex þúsund manns hafa staðfest þátttöku sína í hópmálsókn gegn yfirvöldum í Týról enda mátti rekja smit frá Ischgl í Þýskalandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og á Íslandi

Platter kom Týról þó einnig til varnar og benti á að einhver hefði komið með veiruna til Ischgl.

„Í heimsfaraldri er enginn einn sem ber ábyrgð.“

Austurrísk stjórnvöld hafa tilkynnt að það verði ekkert apres ski í boði í vetur. Fólk geti enn notið veitinga á veitingastöðum á skíðasvæðum en þeim sé skylt að sitja við matarborðið.