Ríkisstjórnin hefur óskað eftir umsögnum við frumvarp um breytingar á lögum um almennar íbúðir. Um er að ræða breytingar til samræmis við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna lífskjarasamninga, sem ætlað var að liðka fyrir gerð nýrra kjarasamninga á almennum markaði.

Átakshópur um húsnæðismál skilaði 40 tillögum til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði 22. janúar. Þær miðuðu meðal annars að því að hagkvæmum íbúðum á viðráðanlegu verði fyrir tekjulága yrði fjölgað,uppbygging almenna íbúðakerfisins haldi áfram og vegur óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga verði greiddur, svo dæmi séu nefnd.

Ríkisstjórnin kynnir nú frumvarp til að koma tillögum 2, 4, 5, og 6 í skýrslu hópsins til framkvæmda. Frumvarpinu er ætlað að hækka tekju- og eignamörk leigjenda almennra íbúða þannig að fleiri landsmenn eigi kost á almennum íbúðum. Því er líka ætlað að lækka fjármagnskostnað „stofnframlagshafa“ og auka fyrirsjáanleika í verkefnum þeirra, liðka fyrir fjölgun nýbygginga í almenna íbúðakerfinu og auðvelda sveitarfélögum að sækja um stofnframlög vegna byggingaverkefna sem eru hafin.

Þá er frumvarpinu ætlað að styðja við uppbyggingu leiguíbúða þar sem misvægi ríkir á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúðarhúsnæðis og þar sem góðar almenningssamgöngur eru til staðar. Lagt er til í frumvarpinu að heimilt verði að veita sérstakt byggðaframlag vegna leiguíbúða án tekju- og eignarmarka. „ Verði frumvarpið að lögum mun heimildin þannig nýtast á þeim svæðum þar sem verulegur skortur er á leiguhúsnæði almennt en markaðsaðstæður hamla uppbyggingu. Slík byggðaframlög væru þannig til þess fallin að styðja verulega við uppbyggingu leiguhúsnæðis á þeim svæðum.“

Nánar má lesa um frumvarpið og/eða skila inn umsögn um það hér.

Í lífskjarasamningunum hét ríkisstjórnin því að verja 80 milljörðum til að styðja við markmið um stöðugleika og bæta kjör launafólks. Aðgerðirnar eru í 38 liðum en þar af snúa 13 að húsnæðismálum. Í einum liðnum kemur fram að ríkisstjórnin muni vinna að því að innleiða tillögur átakshópsins um húsnæðismál í samráði við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög. „Íbúðalánasjóði hefur verið falin eftirfylgni við tillögur átakshópsins í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti.“

Fram kemur á vef Stjórnarráðsins að unnið sé að útfærslu annarra tillagna átakshópsins sem snúa að almenna íbúðakerfinu, „þar á meðal þeim tillögum sem varða frekari lækkun á fjármagnskostnaði stofnframlagshafa og er stefnt að því að frumvarp þar að lútandi verði lagt fram á Alþingi haustið 2019.“