Sú fornfræga menntastofnun, Skútustaðaskóli í Mývatnssveit, fékk í gær nýtt hlutverk þegar skrifstofur Landgræðslunnar, Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs voru þar opnaðar með formlegum hætti.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku,- og loftslagsráðherra, opnaði húsið formlega og hafði á orði að skrifstofurýmið hefði heppnast sérstaklega vel og gæfi góða tilfinningu fyrir áframhaldandi uppbyggingu á nýju hlutverki gamla Skútustaðaskóla.

Skólastarf í Mývatnssveit var um langa hríð rekið bæði á Skútustöðum og í Reykjahlíð, en var sameinað á síðarnefnda staðnum á miðjum síðasta áratug síðustu aldar.