Ríkisskattstjóri þarf að afhenda fréttamanni RÚV upplýsingar um eignarhald Samherja á sama formi og þær voru varðveittar. Þetta kemur fram í úrskurði frá lokum júní sem birtur var á vef Stjórnarráðsins í gær.

Með úrskurðinum ógilti Úrskurðarnefnd upplýsingamála að hluta til ákvörðun ríkisskattstjóra frá nóvember 2020 um að synja beiðni um afhendingu tiltekinna gagna um eignarhald Samherja. Fréttamaður RÚV hafði óskað eftir aðgangi að öllum gögnum sem tengjast skráningu raunverulegra eigenda Samherja. Einnig hafði verið óskað eftir sambærilegum gögnum um skráningu Samherja Holdings ehf., sem heldur utan um eignir Samherja erlendis, og K&B ehf., eignarhaldsfélag Kötlu og Baldvins, barna Þorsteins Más Baldvinssonar.

Ríkisskattstjóri hafði afhent gögnin á rafrænu formi þann 20. nóvember en hafði áður prentað gögnin út og afmáð þagnarskyldar upplýsingar um hlutafjáreign hvers og eins hluthafa. Gögnin höfðu síðan verið skönnuð inn og afhent á PDF-skjali. Í kæru til úrskurðarnefndarinnar var þess krafist að gögnin yrðu afhent í upprunalegu formi með upplýsingunum sem höfðu verið afmáðar.

Í niðurstöðu nefndarinnar var ríkisskattstjóra talið heimilt að strika yfir upplýsingar um nafnverð hlutafjár í eigu einstaklinga, enda væri ekki heimilt að veita aðgang að slíkum upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum. Hins vegar var ekki talið að ríkisstjóri hefði lagt fullnægjandi mat á hvort afhenda bæri upplýsingar um nafnverð hlutafjár í eigu lögaðila og þeim þætti málsins var því vísað til nýrrar meðferðar. Þá var ríkisskattstjóra talið óheimilt samkvæmt lögum að synja afhendingu gagnanna á því formi sem þau höfðu upprunalega verið vistuð á.

Samkvæmt úrskurðinum var ríkisskattstjóra gert að afhenda gögnin á upprunalegu formi.