Áætlað er að ríkissjóður eigi eftir að tapa á láni sem veitt var til byggingar Vaðlaheiðaganga. Þetta kom fram í frétt Ríkisútvarpsins í kvöld. Vaðlaheiðagöng hf. gátu ekki greitt 18,5 milljarða króna lán sem félagið fékk frá ríkinu og féllu í gjalddaga í maí.

Í nýbirtu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar stendur að rekstur ganganna standi ekki undir áætlununum sem lánveitingin var byggð á og að vinna sé hafin við fjárhagslega endurskipulagningu. Ekki sé enn ljóst hvernig að henni verði staðið.

Samkvæmt frétt sem birt var á heimasíðu Vaðlaheiðarganga í janúar dróst heildarumferð um göngin saman um 19,5% á milli 2019 og 2020. Af þeim sem keyrðu milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals keyrðu þó hlutfallslega fleiri um Vaðlaheiðargöng en áður, eða um 80% árið 2020 miðað við 75% árið áður. Umferð um Víkurskarð dróst hins vegar saman um 38,6%.