Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra segir bjart fram­undan í lífi Ís­lendinga þrátt fyrir að heims­far­aldurinn hafi reynst erfiður. Ríkisstjórnin muni beita ríkissjóði „af fullum þunga“ til að skapa viðspyrnu fyrir almenning og atvinnulífið eftir faraldurinn. Í stefnu­ræðu sinni í kvöld fór Katrín yfir helstu mál sem ríkis­stjórn hennar hefur komið í gegnum þingið á síðustu þremur árum og það sem hún leggur á­herslu á að gert verði á þessu síðasta þingi fyrir næstu al­þingis­kosningar.

Mest ræddi Katrín um vinnu­markaðs- og lofts­lags­mál og sagðist á­nægð með þá á­kvörðun Sam­taka at­vinnu­lífsins með að styðja á­fram lífs­kjara­samninginn eftir að ríkis­stjórnin kynnti að­gerðir sínar til að greiða fyrir sátt á vinnu­markaði síðasta þriðju­dag. Þannig gæti þingið nú snúið sér að þeirri á­skorun að skapa fleiri störf og tryggja að at­vinnu­leysi verði ekki lang­varandi.

Hún sagði fjár­mála­á­ætlunina, sem var dreift til þingmanna í dag, sýna stað­fastan vilja stjórn­valda til að verja þann árangur sem hafi náðst í upp­byggingu heil­brigðis- og vel­ferðar­kerfisins, nýrri sókn í menntun, rann­sóknum og ný­sköpun. „Ríkis­sjóði verður beitt af fullum þunga til að skapa við­spyrnu fyrir al­menning og at­vinnu­líf í landinu.“

Vill stofna miðhálendisþjóðgarð

„Þetta verður græn við­spyrna. Hvetja þarf til einka­fjár­festingar og stjórn­völd munu tryggja með já­kvæðum hvötum að kraftur hennar styðji við græna um­breytingu, kol­efnis­hlut­leysi og sam­drátt gróður­húsa­loft­tegunda,“ hélt hún á­fram. „ Einnig við hátækni og þekkingariðnað sem verður mikilvæg stoð í efnahagslífi framtíðar. Um leið eflum við vel­sæld, heil­brigðis­þjónustu og alla þá sam­fé­lags­legu inn­viði sem hafa sannað styrk sinn í þessum ham­förum.“

For­sætis­ráð­herrann fór þá yfir árangur í bar­áttunni við lofts­lags­vandann og skuld­bindingar Ís­lands í þeim efnum. „Á síðustu tæpur þremur árum hefur orðið við­snúningur í bar­áttunni við lofts­lags­vána á Ís­landi og ekki seinna vænna,“ sagði Katrín. „Metnaðar­full að­gerða­á­ætlun í lofts­lags­málum stjórn­valda var kynnt í sumar þar sem sagt var frá að­gerðum sem skila munu meiri árangri en al­þjóð­legar skuld­bindingar okkar krefjast af okkur sam­kvæmt Parísar­sam­komu­laginu og sam­komu­lagi Ís­land, Noregs og Evrópu­sam­bandsins.“

Kvaðst hún þá binda vonir til þess að frum­varp um mið­há­lendis­þjóð­garð yrði sam­þykkt á komandi þing­vetri: „Fram­undan er líka stórt verk­efni á sviði náttúru­verndar: Mið­há­lendis­þjóð­garður sem ég vonast til að Al­þingi af­greiði hér á vetur sem væri stór­kost­legt fram­lag til náttúru­verndar á heims­vísu.“

Mikilvægt að tryggja jöfnuð eftir faraldur

Katrín sagði þá mikil­vægt að tryggja jöfnuð í sam­fé­laginu en heims­sagan hefði sýnt að far­aldrar á borð við þann sem nú geisar hafi iðu­lega valdið auknum ó­jöfnuði í heiminum. „Þeim mun mikil­vægara er að tryggja jöfnuð og fé­lags­legt rétt­læti í þessum ham­förum. Á þeirri braut erum við nú; rétt­látara skatt­kerfi var lög­fest hér í fyrra og nú um ára­mót munu skattar lækka á tekju­lægri hópa. Við höfum á­kveðið að lengja fæðingar­or­lof og í vetur mun Al­þingi glíma við það hvernig staðið skuli að skiptingu þess milli for­eldra.“

Einnig nefndi hún aukinn fjár­styrk ríkis­stjórnarinnar til Kvenna­at­hvarfsins, bætta réttar­stöðu leigj­enda, bætur í fé­lags­lega hús­næðis­kerfinu og loks bætta heil­brigðis­þjónustu á landinu. „Fram­undan eru síðan stór verk­efni: vinna gegn kenni­tölu­flakki og fé­lags­legum undir­boðum, dregin verður varnar­lína um fjár­festingar­banka­starf­semi. Frum­varp um laga­stoð gegn um­sátursein­elti og endur­skoðuð jafn­réttis­lög verða lögð fram, eins ný á­kvæði sem styrkja stöðu barna með ó­dæmi­gerð kyn­ein­kenni í því skyni að efla enn laga­um­hverfið í þágu hin­segin fólks. Staða fylgdar­lausra barna á flótta verður endur­skoðuð sem og að­ferða­fræði við hags­muna­mat barna sem hingað koma í leit að skjóli,“ bætti hún svo við.

Þingið samþykki breytingar á stjórnarskránni

Loks sagði Katrín að Al­þingi gæti nú tekið á­kvörðun um að nýta tæki­færið á þing­vetrinum til að sýna hvernig „þessi sam­kunda getur tekist á við stór og mikil­væg mál og breytt stjórnar­skrá með skyn­sam­legum hætti með al­manna­hags­muni að leiðar­ljósi.“

Þannig gæti þingið sett inn í stjórnar­skrána á­kvæði um að auð­lindir sem ekki eru háðar einka­eignar­rétti verði þjóðar­eign og fleiri á­kvæði, til dæmis um um­hverfis- og náttúru­vernd, þjóðar­at­kvæða­greiðslur og þjóðar­frum­kvæði. „Alþingi getur ákveðið að standast þetta mikilvæga próf og eiga efnis­lega um­ræðu um þessi mál fremur en að festast í hjól­förum liðinna ára og ára­tuga. Við höfum nefnilega frábært tæki­færi til að horfa til fram­tíðar og taka góðar á­kvarðanir fyrir komandi kyn­slóðir.“

„Nú eru kosningar fram­undan á næsta ári og lesa má kunnug­lega spá­dóma um að allt muni nú leysast upp í karp um keisarans skegg. Allt verði hér undir­lagt í hefð­bundnum á­tökum um völd undir nei­kvæðustu for­merkjum stjórn­mála­á­taka. En gleymum því ekki heldur að á bak við á­tökin og skoðana­skiptin eru ó­líkar stefnur og hug­myndir. Þessar ó­líku hug­myndir geta styrkt hver aðra eða kveikt nýjar. Hug­myndirnar eru það sem gerir sam­fé­lagið okkar að því sem það er,“ sagði Katrín.

„Þó að far­aldurinn hafi reynst erfiður þá er bjart fram­undan. Við erum nefnilega ýmsu vön hér á hjara veraldar. Við þekkjum það úr sögunni að í ís­lensku sam­fé­lagi býr kynngi­kraftur og með þeim krafti munum við spyrna okkur sterk­lega frá botni. Þetta mun allt saman fara vel.“