Sigríður J. Friðjónsdóttir, Ríkissaksóknari, telur Landsrétt hafa komist að rangri niðurstöðu þegar sakfellingu manns, sem dæmdur var í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun, var snúið við í Landsrétti á síðasta ári. Hæstiréttur hafnaði áfrýjunarbeiðni ríkissaksóknara í síðustu viku.
„Ríkissaksóknari taldi að dómur Landsréttar í [málinu] væri bersýnilega rangur að formi og efni,“ segir Sigríður í svörum við fyrirspurn Fréttablaðsins. Það hafi þó ekki komið henni á óvart að Hæstiréttur hafi hafnað áfrýjunarbeiðninni enda afar fátítt að Hæstiréttur heimili áfrýjun sakamála.
Ofbeldi og ólögmæt nauðung
Málið sem um ræðir varðar mann sem ákærður var fyrir nauðgun á Þjóðhátíð haustið 2016. Í málinu bar manninum og stúlkunni saman um að kynmök hafi byrjað með samþykki beggja. Stúlkan sagði manninn síðan hafa orðið ofbeldisfullan og nauðgað henni.
Maðurinn hafi beitt hana ofbeldi meðal annars með því að „taka hana kverkataki, toga í hár hennar, kasta henni til og frá og slá hana í andlit og í þjóhnappa.“ Þá hafi hann sett getnaðarlim sinn í endaþarm hennar án hennar samþykkis og haft aftur við hana samræði í grasbala skammt frá með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung.
„Óhefðbundið kynlíf"
Í héraðsdómi er vísað til skýrslu læknis, sem skoðaði stúlkuna eftir atburðinn, og mynda sem sýna áverka á hálsi, framan á lærum og rassi og skrámur á maga. Reifaður er framburður hjúkrunarfræðings sem tók á móti brotaþola í sjúkraskýli og sálfræðings sem hafði hana til meðferðar vegna áfallastreituröskunar í kjölfarið.
Vitnum bar saman um að stúlkan væri trúverðugur í frásögn sinni. Bæði maðurinn og stúlkan voru ölvuð þegar atburðurinn átti sér stað en maðurinn var einnig undir áhrifum fíkniefna.
Einnig er vísað til þess að maðurinn hafi upphaflega sagt að um mjög venjulegar samfarir hafi verið að ræða. Í síðari framburði mannsins hafi hann þó lýst samförum og kynlífi sem getur að mati dómsins ekki talist vera mjög venjulegt, enda hefur hann sjálfur lýst því sem ,,óhefðbundnu kynlífi."
Í málinu er einnig deilt um skilaboð sem send voru úr síma brotaþola til ákærða sem skilja hafi mátt sem vilja hennar til að stunda óhefðbundið kynlíf. Í héraðsdómi er byggt á því að jafnvel þótt brotaþoli hafi sent skilaboðin til ákærða gætu þau ekki orðið til þess að ákærði hafi mátt ganga fram með þeim hætti lýst var í ákæru.
„Er mat dómsins að við slíkt óhefðbundið kynlíf milli fólks, sem þar að auki þekkist aðeins lauslega fyrir atvikið, hvíli á þátttakendum enn ríkari skylda en ella til að afla ótvíræðs samþykkis fyrir öllum athöfnum sínum.“ Var ákærði sakfelldur í héraði og dæmdur í þriggja ára fangelsi.
Ríkari skylda en ella til að afla ótvíræðs samþykkis fyrir öllum athöfnum.
Röng niðurstaða
Maðurinn var sýknaður í Landsrétti. Í forsendum dómsins kemur fram að ákærði hafi staðfastlega neitað því að hafa brotið gegn brotaþola með þeim hætti sem honum er gefið að sök í málinu. Ekkert hafi komið fram í málinu sem til þess sé fallið að draga úr trúverðugleika hans.
„Ákæruvaldið telur Landsrétt hafa komist að rangri niðurstöðu í málinu vegna þess að heildarmat á sönnunargögnum málsins var alls ófullnægjandi,“ segir í áfrýjunarbeiðni Ríkissaksóknara.
Niðurstaða Landsréttar sé sú að ákærði hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli væri samþykk athöfnum hans í umrætt sinn. „Að þessari niðurstöðu kemst rétturinn án þess að leggja mat á sönnunargildi framburðar brotaþola og annarra gagna málsins sem hér hefur verið farið yfir.“