Ríkisráð kemur ekki saman til fundar á Bessastöðum þann 31. desember líkt og venjan hefur verið undanfarna áratugi.

Ástæðan er kórónuveirufaraldurinn en minnst þrír ráðherrar verða í einangrun um áramótin vegna smita.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu Forseta Íslands.

Fjórða undantekningin

Þar segir að sú hefð að hafa ríkisráðsfund á gamlársdag hafi verið við lýði frá því að Kristján Eldrjárn tók við embætti forseta Íslands árið 1968.

Frestun fundarins í ár er fjórða undantekningin frá upphafi. Árið 1978 var ríkisráðsfundur haldinn degi fyrr vegna þess að gamlársdagur það ár lenti á sunnudegi.

Á fyrsta ári Vigdísar Finnbogadóttur á forsetastóli, árið 1980, var fundinum frestað á síðustu stundu vegna spennu og vanda í stjórnarsamstarfinu.

Gamlársdagur lenti aftur á sunnudegi árið 1989 og var þá fundurinn haldinn degi fyrr líkt og árið 1978.

Í öll önnur skipti hefur ríkisráð komið saman á gamlársdag. Næsti fundur ríkisráðs verður boðaður á nýju ári og hefur dagsetning ekki verið ákveðin að því er fram kemur í tilkynningunni.