Ríkis­lög­reglu­stjóra þykir leitt að að­gerðir lög­reglu við leit að stroku­fanga hafi bitnað á sak­lausum ung­lings­dreng í strætó. Þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglu.

Í til­kynningunni segir að á­bending hafi borist um að drengurinn væri sá sem var lýst eftir, en sjálfur hafði drengurinn ekkert unnið sér til sakar.

Fjarlægðu drenginn ekki úr strætó

Lýsing lögreglu á atvikinu í strætó er svohljóðandi: „Í dag var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til aðstoðar við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu þar sem ábending hafði borist um að sá eftirlýsti væri í strætisvagni í Reykjavík. För vagnsins var stöðvuð en þegar sérsveitarmenn fóru inn í vagninn þá sáu þeir strax að ekki var um að ræða einstaklinginn sem var verið að leita að og yfirgáfu þeir því vagninn.”

Af yfirlýsingu lögreglu að dæma var drengurinn ekki fjarlægður úr vagninum eins og lýst var í frétt Fréttablaðsins fyrr í dag.

Samkvæmt heimildum blaðsins treysti drengurinn sér ekki til að vera áfram í strætisvagninum eftir atvikið og hringdu félagar hans á leigubíl og fylgdu honum heim í bílnum.

Í til­kynningu lög­reglu segir að móðir drengsins hafi haft sam­band við ríkis­lög­reglu­stjóra eftir at­vikið og lýst á­hyggjum af þeirri stöðu sem upp væri komin, þar sem ung­menni í minni­hluta­hópi óttist að vera tekin í mis­gripum vegna út­lits.

„Í sam­talinu komu fram mikil­vægar á­herslur sem ríkis­lög­reglu­stjóri ætlar að bregðast við, þar með talið sam­tal við sam­fé­lagið um for­dóma.” segir í tilkynningunni um samtalið við móður drengsins.

Fordómar eigi aldrei rétt á sér

Þá segir í tilkynningunni að em­bættið hvetji til var­kárni í sam­skiptum um þetta mál og önnur mál sem tengjast minni­hluta­hópum. „For­dómar eiga aldrei rétt á sér. Leit að hættu­legu fólki má ekki verða til þess að minni­hluta­hópar í okkar sam­fé­lagi upp­lifi ó­öryggi eða ótta við að sam­ferða­fólk þeirra til­kynni það til lög­reglu án til­efnis,” segir í til­kynningunni.

Tilkynning lögreglunnar í heild:

Lögregla leitar nú ungs manns sem tilheyrir minnihlutahópi á Íslandi, en hann strauk frá lögreglu og er talinn hættulegur. Í dag var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til aðstoðar við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu þar sem ábending hafði borist um að sá eftirlýsti væri í strætisvagni í Reykjavík. För vagnsins var stöðvuð en þegar sérsveitarmenn fóru inn í vagninn þá sáu þeir strax að ekki var um að ræða einstaklinginn sem var verið að leita að og yfirgáfu þeir því vagninn.

Móðir drengsins hafði samband við ríkislögreglustjóra í kjölfarið og lýsti áhyggjum af þeirri stöðu sem komin væri upp, þar sem ungmenni í minnihlutahópi óttist að vera tekin í misgripum vegna útlits. Í samtalinu komu fram mikilvægar áherslur sem ríkislögreglustjóri ætlar að bregðast við, þ.m.t. samtal við samfélagið um fordóma.

Ríkislögreglustjóra þykir leitt að drengurinn hafi í dag orðið hluti af þessum aðgerðum lögreglu en ábending barst um að hann væri sá sem var lýst eftir, sjálfur hafði drengurinn ekkert unnið sér til sakar.

Þá hvetur embættið til varkárni í samskiptum um þetta mál og önnur mál sem tengjast minnihlutahópum. Fordómar eiga aldrei rétt á sér. Leit að hættulegu fólki má ekki verða til þess að minnihlutahópar í okkar samfélagi upplifi óöryggi eða ótta við að samferðafólk þeirra tilkynni það til lögreglu án tilefnis.

Fordómafullar athugasemdir verða áfram fjarlægðar af miðlum lögreglunnar um málið og lokað verður fyrir frekari athugasemdir. Ábendingum sem tengjast málinu skulu eftir sem áður berast Lögreglunni í síma 112.