Landgræðslan tekur yfir land jarðarinnar Langekru á Rangárvöllum sem liggur að friðlandinu Oddaflóði.

Síðasti ábúandinn á ríkisjörðinni Langekru lést á árinu 2015. Þar eru 57 hektarar af ræktuðu landi en jörðin er að stórum hluta í óskiptu landi með sögustaðnum Odda. Steinsnar er milli íbúðarhúsanna á þessum tveimur jörðum.

Að því er fram kemur í minnisblaði sem tekið var saman í Rangárþingi ytra er Langekra að mestu mólendi og túnin blaut.

„Landið myndi að hluta til henta mjög vel til endurheimtar votlendis og með því að lagfæra gamla íbúðarhúsið væri komin frábær bækistöð fyrir uppbyggingu fuglaskoðunaraðstöðu gagnvart friðlandinu í Oddaflóðum og fornleifarannsóknum og uppbyggingu í Odda,“ segir í minnisblaðinu. Oddaflóð eru vestur og suður af Langekru og Odda.

„Mikilvægur þáttur í Oddarannsóknum eru greiningar og uppgröftur svokallaðra Sæmundarhella eða Nautshella en þeir liggja einungis nokkra tugi metra frá íbúðarhúsinu í Ekru,“ segir áfram í minnisblaðinu. Oddafélagið hafi samið við Fornleifastofnun um fornleifarannsóknir í Odda í samstarfi við Minjastofnun. „Fræðimenn aðrir, meðal annars frá Háskóla Íslands, gætu átt innhlaup í Ekru og þetta yrði í raun gáttin að friðlandinu í Oddaflóðum, votlendissetur og fuglaskoðunarparadís.“

Þá segir að með því að fylla í suma þá lélegu skurði sem séu í Ekrulandinu fái votlendið að ráða ríkjum eins og margir þrái. „Landgræðslan leikur einmitt lykilhlutverk í endurheimt votlendis og samstarfssamningur við Oddafélagið og sveitarfélagið Rangárþing ytra væri farsæl leið til að fóstra vel ríkisjörðina Langekru.“

Fjármálaráðuneytið samþykkti í maí 2018 að umráð jarðarinnar yrðu færð til Landgræðslunnar í tengslum við endurheimt votlendis í samræmi við sóknaráætlun í loftslagsmálum. Landgræðslan hygðist ráðast í kolefnismælingar og svo endurheimt votlendis og bindingu kolefnis.

Kvaðst ráðuneytið einnig tilbúið til að selja Rangárþingi ytra íbúðarhúsið á Langekru. „Slík sala yrði þó að byggja á hlutlægu verðmati sem tæki mið af markaðsverðmæti eignarinnar,“ segir í svarbréfi ráðuneytisins sem síðar samþykkti verðmat umsvifamikils fasteignasala á Suðurlandi upp á sex milljónir króna. Opinbert fasteignamat var hins vegar 24 milljónir króna.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í desember vill meirihluti sveitarstjórnar færa Oddafélaginu íbúðarhúsið að gjöf en minnihlutinn leggur hins vegar til að félagið fái húsið til umráða en ekki til eignar. Oddafélagið vinnur að endurreisn menningar- og fræðaseturs á Odda.

„Hugmyndin hefur alltaf verið að Oddafélagið myndi taka við húsinu og laga það til þannig að það nýtist meðal annars sem bækistöð fyrir fornleifafræðinga sem vinna að Oddarannsókn, fyrir fornleifaskólann og fleiri spennandi verkefni sem öll miða að því að gera Odda að miðstöð menningar að nýju. Þetta væri þá eins konar bækistöð og lítið fræðasetur – kannski fyrsti vísir að Sæmundarsetri í Odda,“ segir Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri.