Í umsögn um fjárlög varar Ríkisendurskoðun við því að ríkið ábyrgist 4 milljarða króna lántökuheimild félagsins Betri samgöngur ohf. Félagið var stofnað haustið 2020 af sveitarfélögunum sex á höfuðborgarsvæðinu, aðallega til þess að byggja upp Borgarlínuna.

Lántökuheimildin er í 5. grein fjárlaga en fram kemur að eigendurnir leggi til 3 milljarða króna árlega til félagsins. Þá verði félagið einnig fjármagnað með ráðstöfun lands og hugsanlegum umferðargjöldum. Á fyrri stigum þurfi hins vegar að brúa bilið milli tekna og gjalda með lántökum.

Ríkisendurskoðun varar við áhættu sem felst í því að framkvæmdir séu fjármagnaðar með lántökum fremur en beinum framlögum, sérstaklega þegar óvissa ríkir um endanlegan kostnað. Er vísað til uppbyggingar Vaðlaheiðaganga, þar sem kostnaður fór langt fram úr áætlunum og einkaaðilar treystu sér ekki til að lána til verkefnisins. Ríkissjóður muni líklega tapa fé vegna ábyrgða á því.

„Áhættan minnkar ekki ef aðrir aðilar en ríkið eru ráðandi um tilhögun þess og stýra í raun ferðinni,“ segir í umsögninni sem Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi og Jón Loftur Björnsson sviðsstjóri undirrita.