Ríkiseignir hafa í um 150 skipti greitt dráttarvexti sem fallið hafa á reikninga stofnunarinnar á þessu ári. Upphæðin nemur tæplega 350 þúsund krónum. Stofnunin er sú ríkisstofnun sem hefur greitt hæsta upphæðina í dráttarvexti á árinu en alls hafa stofnanir ríkisins greitt 1,7 milljónir króna í dráttarvexti síðan um áramót.

Háskóli Íslands er í öðru sæti með 143 þúsund krónur í dráttarvexti og Matvælastofnun hefur greitt tæplega 110 þúsund krónur á árinu. Þess má get að ekki hafa allar stofnanir birt reikninga sína frá áramótum, svo upphæðir sumra stofnana kunna að vera hærri.

Snævar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ríkiseigna, segir í samtali við Fréttablaðið að stofnunin velti gífurlegum fjármunum. Stofnunin greiði 12 til 14 þúsund reikninga árlega. 

Ríkiseignir hafa umsjón með fasteignum, jörðum og auðlindum í eigu ríkisins í umboði fjármálaráðuneytis. Hann segir að einhverjir reikningar kunni að taka lengri tíma í vinnslu en aðrir og þá komi reglulega upp tilvik - til dæmis þegar kröfur hafa verið seldar - þar sem gjalddagi er mjög skammur. 

Ekki til stefna um gjaldfrest

Snævar segir að dráttarvextirnir séu til komnir vegna reikningsviðskipta við verktaka og aðra þjónustuaðila. „Það er ekki eðlilegt að greiða dráttarvexti. En stundum er það óumflýjanlegt,“ segir hann.

Snævar segir aðspurður að upphæðir dráttarvaxta sem stofnunin greiði sé svipuð frá ári til árs. Um sé að ræða kerfislægan vanda sem byggi á því að ekki hafi verið mótuð stefna um gjaldfresti. 

Reikningar opinberir frá áramótum

Þessar tölur taka mið af þeim reikningum sem birst hafa á opnirreikningar.is. Þar er hægt að fletta upp reikningum opinberra stofnana, yfirleitt frá því um síðustu áramót. Vefsíðan opnaði þó í september. 

Reikningar sem kunna að hafa stríða gegn persónuvernd eða hafa skaðleg áhrif á samkeppni eða öryggismál eru ekki birtir á síðunni. Þar birtast einungis reikningar sem fara í gegn um viðskiptaskuldakerfi stofnana; reikningar fyrir kaup á vörum og þjónustu. Launagreiðslur og bætur fara ekki í gegn um þetta kerfi.

Dráttarvextir eru vextir sem reiknast á vanskil og eru hugsaðir til að bæta kröfueiganda upp frestun á greiðslu. Þeir falla sum sé til þegar reikningur er ekki greiddur á réttum tíma. Alls hafa sextíu ríkisstofnanir greitt dráttarvexti á árinu.