Landsréttur dæmdi í dag að skattur sem ríkið hefur í mörg ár lagt á olíufélög vegna innflutnings á olíuvörum stæðist ekki stjórnarskrá Íslands. Var ríkinu því gert að endurgreiða tveimur félögum, Skeljungi og Atlantsolíu, ofgreidd gjöld upp á hundruð milljónir króna.

Málin snerust um innheimtu svokallaðs flutningsjöfnunargjalds sem er lagt á allar olíuvörur sem fluttar eru til Íslands. Gjaldið var lagt á grundvelli laga sem sett voru árið 1994 en felld úr gildi árið 2020. Upphaflega rann gjaldið í svokallaðan Flutningsjöfnuðarsjóð sem hafði það hlutverk að jafna flutningskostnað á olíuvörum sem ætlaðar voru til nota innanlands. Lögunum var hins vegar breytt árið 2018 þannig að sjóðurinn var lagður niður og gjaldið látið renna beint í ríkissjóð. Greiðslur til olíufélaga til flutningsjöfnunargjalds héldu þó áfram með óbreyttu sniði.

Jöfnunargjaldið hefur löngum verið þyrnir í augum olíufélaganna. Í málunum færðu þau rök fyrir því að ekki væri næg lagastoð fyrir skattlagningu af þessu tagi, enda leggur stjórnarskrá Íslands við því bann að skattur sé lagður nema með lögum. Í lögunum sem jöfnungargjaldið byggði á var Byggðastofnun falið að ákveða fjárhæð skattsins samkvæmt viðmiði um flutningskostnað. Landsréttur féllst á að þetta fyrirkomulag fæli í sér of almennt framsal skattlagningarvald frá löggjafanum til stjórnvalda og gerði ríkinu því að endurgreiða olíufélögunum gjöld sem greidd höfðu verið á tímabilinu 2016 til 2019.

Ríkinu var gert að greiða Skeljungi 448.604.159 kr. með vöxtum, auk þess sem ríkið verður að greiða 1.000.000 króna málskostnað. Atlantsolíu verður ríkið að greiða 86.899.269 krónur með vöxtum auk einnar milljónar málskostnað.

Í málunum hafnaði Landréttur varakröfu ríkisins um að fjárhæðir sem olíufélögin fengu sjálf greidd úr flutningsjöfnaunarsjóði á tímabilinu yrðu dregnar frá endurgreiðsluupphæðinni. Á tímabilinu sem um ræddi hlaut Skeljungur 345.866.959 kr. styrk úr flutningsjöfnunarsjóðinum en Atlantsolía 22.211.341 kr. Landsréttur féllst ekki á að þessar greiðslur yrðu dregnar frá endurgreiðslu ríkisins til olíufélaganna þar sem þær hefðu ekki verið endurgreiðsla á skatti heldur væru þær óháðar því hvort viðkomandi hefði innt skattinn af hendi.