Íslenska ríkið hefur viðurkennt brot gegn kærendum í fjórtán málum sem hafa verið til meðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu (MDE). Um er að ræða mál af sömu rót og Landsréttarmálið svokallaða, en kærendurnir fjórtán eiga það sameiginlegt að einhver hinna fjögurra dómara við Landsrétt, sem dómur MDE í Landsréttarmálinu tekur til, dæmdi einnig þeirra mál.

Með ákvörðun MDE, sem birt var í gær, lýkur málunum með vísan til yfirlýsinga ríkisins en í þeim felst, auk yfirlýsingar um brot, að greiddar verði 4.000 evrur til hvers og eins kæranda í málskostnað. Þá lýsir ríkið því einnig yfir að kærendur í hverju og einu máli eigi þann kost að krefjast endurupptöku síns máls hjá endurupptökudómi.

Meðal kærenda eru Jens Guðmundsson, sem dæmdur var í fimmtán mánaða fangelsi fyrir spillingu og brot í starfi sem rannsóknarlögreglumaður, Eldin Skoko og Fjölnir Guðsteinsson, sem báðir voru dæmdir fyrir nauðgun og Otto Örn Þórðarson, sem dæmdur var fyrir amfetamínsmygl.

Í yfirlýsingu ríkisins, sem dómstóllinn hefur fallist á, kemur fram að kærendur eigi þess kost að krefjast endurupptöku sinna mála fyrir íslenskum dómstólum.

Auk þessa gerði ríkið dómsátt við tvo kærendur til viðbótar, Atla og Gunnlaug Briem, og hafa þær sömu réttaráhrif og í fyrrnefndu málunum fjórtán. Kæruefni Atla til MDE varðaði mál sem hann höfðaði til að freista þess að fá lögmannsréttindi á ný en þau missti hann þegar hann var dæmdur fyrir manndráp árið 2000. Gunnlaugur kærði til MDE vegna endurtekinnar refsimeðferðar vegna skattalagabrota.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður flestra kærendanna, segir Landsréttarmálinu enn ekki lokið. „Nú þurfa umbjóðendur mínir að taka ákvörðun um hvort þeir vilji krefjast endurupptöku sinna mála á þessum grundvelli. Mér sýnist á ákvörðun Mannréttindadómstólsins í dag að hann sýni hinum nýja endurupptökudómi mikið traust,“ segir Vilhjálmur en í ákvörðun réttarins er þess getið að unnt verði að taka málin aftur upp þar ytra ef ekki verður staðið við skilmála ákvörðunarinnar.