Níu konur hafa kært íslenska ríkið fyrir að hafa brotið á rétti sínum til réttlátrar málsmeðferðar.

Konurnar kærðu allar nauðganir, heimilisofbeldi og/eða kynferðislega áreitni til lögreglu en málin voru felld niður. Íslenska kvennahreyfingin segir brotið kerfisbundið á rétti kvenna sem kæri kynbundið ofbeldi, til að mynda með því að mál fyrnist vegna þess hve langan tíma tekur að boða sakborning í skýrslutöku, rannsóknir lögreglu taki almennt of langan tíma og að sönnunargögn séu ekki tekin alvarlega.

Konurnar krefjast þess að brotaþolum, sem kæra kynferðisbrot eða ofbeldi í nánum samböndum, verði veitt aðild að sakamálinu, að meira fé sé veitt í rannsókn og saksókn og að dómurum, saksóknurum og lögreglu sé veitt fræðsla um ákvæði sem snúa að kynferðisbrotum og ofbeldi í nánum samböndum.

Þá er gerð krafa um að brotaþolar hafi rétt á gjafsókn.

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að um 75–80% af sakamálum þar sem konur kæri ofbeldisbrot séu felld niður og fái aldrei áheyrn dómstóla. Þá hafi konur enga aðra leið en að fara í einkamál.

„Í einkamálum er sönnunarstaðan ekki eins þung og í sakamálum en þau eru hins vegar dýr og því alls ekki aðgengileg. Ef ríkið tryggir gjafsókn opnast þarna möguleiki á einhverju réttlæti fyrir brotaþola kynbundins ofbeldis þegar önnur kerfi bregðast,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir.