Vil­hjálmur H. Vil­hjálms­son lög­maður velti þeirri spurningu upp á fundi Lög­manna­fé­lagsins í há­deginu í dag, hvort meint pólitísk hrossa­kaup innan Sjálf­stæðis­flokksins um skipun dómara, þarfnist sér­stakrar rann­sóknar af hálfu yfir­valda.

Í til­efni af dómi yfir­deildar Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu (MDE) í Lands­réttar­málinu, sem var kveðinn upp síðasta þriðju­dag, blésu Lög­manna­fé­lag Ís­lands, Lög­fræðinga­fé­lag Ís­lands og Dómara­fé­lag Ís­lands til fundar í há­deginu í dag. Þar hélt Vil­hjálmur stutt erindi þar sem hann benti á orð dómsins um skipan Arn­fríðar Einars­dóttur í em­bætti dómara við Lands­rétt sumarið 2017.

Í mála­til­búnaði Vil­hjálms á hendur ríkinu í Lands­réttar­málinu heldur hann því fram að skipan Arn­fríðar hafi verið liður í pólitískum hrossa­kaupum innan Sjálf­stæðis­flokksins en Arn­fríður er eigin­kona þing­manns flokksins, Brynjars Níels­sonar. Þremur mánuðum eftir skipun Arnfríðar hleypti Brynjar Sig­ríði Á. Ander­sen, þá­verandi dóms­mála­ráð­herra, fram fyrir sig á fram­boðs­lista flokksins í Reykja­vík suður.

Sigríður Á. Andersen sagði af sér sem dómsmálaráðherra í kjölfar dóms MDE í Landsréttarmálinu í fyrra.
Fréttablaðið/Ernir

Á fundinum í dag ræddi Vil­hjálmur dóms­orð MDE um þetta at­riði og las upp niður­lag 265. mgr. í for­sendum dómsins: Í þessu sam­bandi getur dómurinn enn fremur ekki horft fram hjá stað­hæfingum kæranda varðandi það heild­stæða pólitíska sam­hengi sem til­lögur ráð­herrans voru lagðar fram innan (sjá efnis­greinar 46 og 89). Enda þótt dómurinn geti ekki slegið því föstu að ráð­herrann hafi að­hafst eftir pólitískum hvötum, eins og kærandi byggir á, þá horfir dómurinn til þess að at­hafnir ráð­herrans voru þess eðlis að leiða af sér hlut­lægt séð rétt­mætar efa­semdir þess efnis, (þ.e. skipan A.E. í em­bætti dómara við Lands­rétt).

„Ég vil ljúka máli mínu með því að biðja fundar­gesti um hug­leiða þessi orð dómsins sem kveðinn var upp ein­róma af 17 dómurum dóm­stólsins og velta því fyrir sér hvort að þessi at­burða­rás sé ekki eitt­hvað sem þarfnist nánari skoðunar af hálfu ís­lenska ríkisins,“ sagði Vil­hjálmur.

Að­dróttanir og sam­særis­kenningar

Brynjar Níels­son hefur al­farið neitað þessum mála­til­búnaði Vil­hjálms en meðal máls­gagna ríkisins vegna máls­með­ferðar yfir­deildar MDE fylgdi yfir­lýsing hans um málið:

„Þessar að­dróttanir og sam­særis­kenningar eru hugar­burður og eiga sér enga stoð í veru­leikanum. Hér verið að reyna að skapa and­rúms­loft spillingar og hrossa­kaupa án þess að nokkur gögn styðji slíkt,“ segir í yfir­lýsingu Brynjars.

Brynjar Níels­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, hleypti Sig­ríði fram fyrir sig á fram­boðs­lista Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík suður fyrir kosningarnar 2017.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hann vísaði til að­draganda þess þegar Sig­ríður varð ráð­herra haustið 2016 þegar hann var ofar henni á lista. „„Á­stæða þess [...] voru kynja­sjónar­mið en for­maður Sjálf­stæðis­flokksins hafði áður sagt að við myndun ríkis­stjórnar yrði kynja­hlut­fall flokksins eins og jafnt og kostur væri.“ Hann segist þannig engan samning hafa gert við Sig­ríði til að út­vega konu sinni stöðu við Lands­rétt og að hann hafi ekki haft nein af­skipti af með­ferð málsins á Al­þingi.

Í yfir­lýsingu sinni til MDE rakti hann þá á­stæður þess að hann hafi lagt til að Sig­ríður yrði odd­viti kjör­dæmisins fyrir kosningarnar 2017. Hann segist hafa verið undir tölu­verðum þrýstingi innan flokksins sem vildi að kona yrði odd­viti í ein­hverju kjör­dæma landsins og segir að það hafi verið eðli­legt að Sig­ríður færi fram fyrir hann á lista þar sem hún var þegar í ráð­herra­em­bætti.