Héraðs­dómur Reykja­víkur sýknaði ís­lenska ríkið í gær af kröfu trú­fé­lagsins Zu­ism. For­svars­menn fé­lagsins stefndu ríkinu þar sem sýslu­maður hafði beðið Fjár­sýslu ríkisins um að stöðva greiðslur til fé­lagsins þar sem ekki þótti sýnt fram á að það hefði upp­fyllt reglur.

Fóru þeir fram á að ríkið greiddi tæp­lega 4,4 milljónir króna í sóknar­gjöld fyrir þrjú tíma­bil, frá 15. febrúar til 15. apríl 2019 með dráttar­vöxtum. Sýslu­maðurinn á Norður­landi eystra, sem sér um eftir­lit með trú- og lífs­skoðunar­fé­lögum, hafði eins og áður segir stöðvað greiðslurnar þar sem vafi lék á því að Zu­ism upp­fyllti skil­yrði laga.

Fékk em­bættið þá svör frá trú­fé­laginu í mars og svo aftur septem­ber í síðasta ári. Í dómi héraðs­dóms kemur fram að svörin hafi ekki þótt full­nægjandi og ekki til þess fallnar að gera sýslu­manni kleyft að meta hvort starf­semi fé­lagsins sé virk og stöðug.

„Stefnandi gerir því ekki grein fyrir því hvaða góða mál­efni það var sem hann veitti háa styrki árið 2017, í hverju að­keypt þjónusta fyrir um­tals­verðar fjár­hæðir fólst, svo og hvaða kostnað tengdan við­burðum fé­lagið þurfti að greiða og síðast en ekki síst hvaða tengdi aðili það var sem fékk afar hátt lán frá stefnanda árið 2017. Í árs­reikningnum voru ekki skýringar við einn einasta lið.“

Kemur fram í dóminum að em­bættið hafi því fylli­lega gætt meðal­hófs. Þótt gögn frá fé­laginu væru ó­full­nægjandi hafi ekki verið gengið lengra en að stöðva greiðslur til fé­lagsins, mánuð í senn. „Það rétta­r­á­stand sem veitti sýslu­manni heimild til þess að stöðva greiðslur til stefnanda um sinn stendur því enn. Þar eð stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann upp­fylli skil­yrði laga nr. 108/1999 til þess að skylt sé að greiða honum sóknar­gjöld verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda.“