Stjórnvöld á Íslandi ættu að taka loftslagsbreytingum jafn alvarlega og áskorunum vegna COVID-19 að mati 61 prósents landsmanna, samkvæmt nýrri könnun Gallup fyrir Landvernd.

17 prósent segjast vera ósammála eða mjög ósammála þessu og 22 prósent taka ekki afstöðu.

„Niðurstöðurnar sýna að Íslendingar skilja alvöruna á bak við hamfarahlýnun og skilja að aðgerðirnar sem þarf til þess að sporna við þeim á viðunandi hátt eru af mjög stórum skala og þurfa að ná til allra anga samfélagsins,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. Ríkið sé of hallt undir hagsmunaöfl.

Yngri líklegri til að líta vandann alvarlegum augum

Úr svörunum má lesa að þeir sem eru yngri, betur menntaðir, tekjulægri og búsettir á höfuðborgarsvæðinu eða nærri því, telja helst að taka eigi áskorunum vegna loftslagsvandans alvarlega.

„Við erum tilbúin í breytingar á samfélaginu sem niðurstöður vísindarannsókna sýna að eru nauðsynlegar,“ segir framkvæmdastjóri Landverndar áfram.

Fullyrðingin sem svarendur áttu að lýsa hversu sammála eða ósammála þeir væru hljóðaði svo: „Ríkisstjórn Íslands ætti að taka áskorunum Íslands vegna loftslagsbreytinga jafn alvarlega og áskorunum vegna Covid-19.“

Af 799 svörum eru 412 frá körlum og 387 frá konum. Talsverður munur er á svörum kynjanna. Þannig segjast 70 prósent kvennanna vera sammála eða mjög sammála fyrrnefndri fullyrðingu á móti 52 prósentum karla. Þá sögðust 25 prósent karla vera ósammála eða mjög ósammála fullyrðingunni en aðeins 9 prósent kvenna.

Ættu að nýta sér niðurstöðurnar

„Ríkisstjórnin getur að mati Landverndar nú fylgt eftir yfirlýsingum sínum um 40 prósenta samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 af fullum krafti,“ segir Auður.
Þá kveður Auður kjósendur styðja að gripið verði til markvissra og öflugra aðgerða þar sem niðurstöður vísindafólks og ráðleggingar sérfræðinga ráði för en ekki þrýstingur frá hagsmunaöflum.
„Ríkisstjórnin ætti að nýta þessa stuðningsyfirlýsingu við yfirlýst markmið hennar í loftslagsmálum nú þegar inn í næstu útgáfu af aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem von hefur verið á í nokkra mánuði,“ segir Auður.

Segjast 70 prósent þeirra sem hafa fjölskyldutekjur undir 400 þúsund krónum á mánuði vera sammála fullyrðingunni á móti 56 prósentum þeirra sem eru í fjölskyldu með yfir 1.250 þúsund krónur í mánaðartekjur.

Og heldur skarpari andstæður eru eftir menntun því 71 prósent háskólamenntaðra segjast sammála á móti 47 prósentum þeirra sem eingöngu hafa grunnskólapróf.

Meðal þeirra sem eru með grunnskólapróf er jafnframt hæsta hlutfall þeirra sem segjast hvorki vera sammála né ósammála fullyrðingunni sem sett er fram, 37 prósent.
Í hópi háskólamenntaðra er að sama skapi lægsta hlutfall þeirra sem ekki taka afstöðu, eða 15 prósent.