Íslenska ríkið var sýknað af kröfu Guðjóns Skarphéðinssonar um bætur vegna Geirfinnsmálsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Fjárhæðin sem krafist var nemur rúmum 1,3 milljarði vegna frelsissviptingar í tæp fimm ár og fjölda ólöglegra rannsóknaraðgerða sem Guðjón var látinn sæta meðan rannsókn Geirfinnsmálsins stóð yfir.

Guðjón er einn fimm dómfeldra í málinu sem sýknaður var í Hæstarétti í kjölfar endurupptöku málsins árið 2018. Hann er því lögum samkvæmt saklaus af aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar.

Í dóminum er hins vegar fallist á allar helstu málsástæður setts ríkislögmanns fyrir sýknu af bótakröfu Guðjóns. Hún sé fyrnd, því dómur árið 2017 breyti engu um hvenær málsatvik sem krafist sé bóta fyrir áttu sér stað. Samkvæmt þágildandi fyrningarlögum er fyrningarfrestur tíu ár frá því hinn bótaskyldi atburður átti sér stað og sýknudómur Hæstaréttar breyti engu um hvenær málsatvikin urðu.

Dómur frá 1980 hafi sönnunargildi

Í forsendum er dvalið við sönnunarreglur og tekið fram að dómari skeri úr um, með mati á framlögðum gögnum hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð. Það hvíli á stefnanda að sanna að hann eigi rétt til bóta.

Ítrekað er vísað til þess að í sýknudómi Hæstaréttar sé ekki fjallað efnislega um málsatvik í málinu. Er því slegið föstu að dómurinn hafi ekki sönnunargildi um málsatvikin. Um þau er vísað til dóms réttarins frá áttunda áratugnum þar sem Guðjón og aðrir sakborningar voru sakfelldir fyrir að hafa orðið Geirfinni að bana.

„Um málsatvik var hins vegar dæmt í dómi Hæstaréttar í máli nr. 214/1978 og ber því að líta til þess dóms varðandi málsatvikin, nema að því leyti sem „það gagnstæða er sannað“”, segir í niðurstöðu héraðsdóms. Þá segir einnig að úrskurði endurupptökunefndar verði ekki jafnað til matsgerðar dómkvaddra matsmanna og teljist ekki sönnunargagn að því er varðar málsatvik, sem gangi framar dómi Hæstaréttar frá 1980.

Eigin sök Guðjóns svipti hann bótarétti

Vísað er til ummæla í kröfugerð setts saksóknara í endurupptökumálinu þess efnis að vísbendingar séu um að játningar í málunum hafi átt við rök að styðjast því „ætla mætti að til undantekninga heyri að svo margir einstaklingar játi ranglega aðild að atlögu að manni eða mönnum sem leitt hafi hann eða þá til dauða og einnig að vitni styðji við þær játningar.“ Hins vegar hafi engin lík fundist, ekkert sé vitað um dánarorsök og engum áþreifanlegum sönnunargögnum sé til að dreifa um að mönnum þessum hafi yfirhöfuð verið ráðinn bani. Í dómi Héraðsdóms eru þær ályktanir dregnar að sýknukrafa ákæruvaldsins í málinu hafi byggt á því að hlutlæg sönnunargögn skorti í málinu.

Fallist er einnig á málsástæðu ríkisins að Guðjón hafi sjálfur stuðlað að aðgerðum gegn sér með frumburði sínum í skýrslutökum. Um þetta segir meðal annars í dóminum. „Í ofan nefndum dómum er játning stefnanda lögð til grundvallar mati á sekt hans. Stefnandi hafði ekki fallið frá framburði sínum heldur „haldið fast við“ hann eins og segir í dómi Hæstaréttar. Með játningunni viðurkennir stefnandi að eiga sök á dauða Geirfinns. Eigin sök stefnanda sviptir hann því að geta átt rétt til skaðabóta.”

Í forsendum dómsins er einnig tekið fram að það skipti í raun ekki máli fyrir bótaréttinn hafi játning Guðjóns og aðrir framburðir hans við rannsókn málsins ekki verið sannleikanum samkvæm. Með röngum framburði við rannsókn máls sé rannsóknin afvegaleidd sem leiði bæði til lengri rannsóknartíma og þess að kveðinn verði upp rangur dómur. Þá geti verið refsivert að skýra rangt frá fyrir dómi og taka á sig sök. Svo segir í niðurstöðu héraðsdóms:

„Með vísan til framburða þeirra sem stefnandi gaf fyrir dómi hefur hann sjálfur valdið þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Því hefur stefnandi fyrirgert rétti sínum til bóta vegna handtöku, gæsluvarðhalds, ætlaðs rangs dóms, afplánunar dómsins og skilorðsins/reynslulausnarinnar“.

Öllum kröfum Guðjóns um bætur vegna ólöglegra rannsóknaraðgerða, ólöglegrar handtöku, leit, haldlagningu, símhlustun og ólöglega læknisskoðun er einnig hafnað.

Ragnar vegi að æru opinberra starfsmanna

Í niðurlagi forsendna sinna er aðfinnslum beint að lögmanni Guðjóns, Ragnari Aðalsteinssyni vegna þeirrar málsástæðu hans að háttsemi hinna opinberu starfsmanna sem að rannsókn málsins komu á öllum stigum hafi verið refsiverð. Sakfelling Guðjóns hafi verið fengin fyrir óráðvandlegt athæfi og hafi það áhrif á ákvörðun miskabóta til hækkunar, auk þess sem stefnandi hafi verið borinn sökum um alvarlegasta glæp sem getið er í lögum. Um þetta atriði segir í niðurstöðu Héraðsdóms:

„Þessi málsástæða stefnanda er með öllu haldlaus og telur dómurinn þennan málflutning lögmanns stefnanda aðfinnsluverðan, þar sem vegið er að æru opinberra starfsmanna, lifandi sem látinna, og þeir sakaðir um refsiverða háttsemi í störfum sínum.“

Ragnar Aðalsteinsson staðfestir í samtali við Fréttablaðið að dóminum verði áfrýjað til Landsréttar.