Nýlega féll dómur í héraði þar sem íslenska ríkið var sýknað vegna kröfu um skaða- og miskabætur upp á 17 milljónir króna vegna þvingunaraðgerða á bóndabæ árið 2012. Á heimasíðu Matvælastofnunnar er sagan rakinn en bóndinn, sem stefndi ríkinu, var með allt of margar kindur í of litlu fjárhúsi. Gerði MAST kröfu um úrbætur vegna fóðrunar, brynningar og húsakosts og hafði sérstakt eftirlit vegna ófullnægjandi aðbúnaðar og umhirðu með sauðfé á bænum.

Eftir að MAST hafði þrábeðið bóndann um að fækka hjá sér í bágbornum fjárhúsunum var lögregla send á vettvang til að fækka. Þá hafði bóndinn selt 329 kindur og náð að fækka niður í þann fjölda sem talið var að rými væri fyrir. En bóndinn var ósáttur og stefndi ríkinu.

Í dómnum segir að í ljósi þeirra fresta sem veittir voru til úrbóta og lagfæringa yrði ekki fallist á að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Umráðamönnum hafi gefist tóm til að selja umframféð með frjálsum samningum og slíkt hafi verið gert. Í ljósi atvika málsins yrði ríkið ekki gert ábyrgt fyrir því hvort salan teldist umráðamönnum hagstæð eður ei. Þá hafnaði dómstóllinn miskabótakröfu þar sem fyrir lágu upplýsingar um bágan húsakost og aðbúnað sauðfjár á jörðinni sem umráðamenn báru sjálfir ábyrgð á.