Ís­lenska ríkið var í dag sýknað af 140 milljóna kröfu lög­reglu­manns sem starfaði við lög­reglu­em­bættið á Vestur­landi. Staða mannsins við em­bættið var aug­lýst þegar stutt var eftir af skipunar­tíma hans vegna ein­eltis og erfiðra sam­skipta hans við sam­starfs­aðila sína í lög­reglu­em­bættinu.

Fram kemur í dómi héraðs­dóms Vestur­lands að yfir­lög­reglu­þjónn átti á fjögurra ára tíma­bili sam­tala tvisvar, 2015 og 2018, sam­tal við lög­reglu­manninn eftir að hafa borist kvartanir vegna fram­komu hans. Í seinna skiptið var honum til­kynnt að það kæmi til greina að aug­lýsa stöðu hans, en lög­reglu­maðurinn hafði verið starfandi við em­bættið frá árinu 2012 en lög­reglu­maður frá því 1985.

Í maí 2019 átti yfir­lög­reglu­þjónn svo sam­tal við tvær lög­reglu­konur þar sem þær lýstu báðar yfir mikilli þreytu yfir á­standinu og að þær í­huguðu að hætta störfum vegna þessa.

Hinn 6. júní 2019 barst svo fagráði lög­reglu kvörtun fimm sam­starfs­manna mannsins vegna ein­eltis hans í þeirra garð en það voru allir sam­starfs­menn lög­reglu­mannsins á Snæ­fells­nesi. Fagráðið gaf álit sitt svo í ágúst sama ár þar sem ýmsar úr­bætur voru lagðar til.

Manninum var þó fyrir það til­kynnt í júní að staða hans yrði aug­lýst laus. Honum var af­hent bréf á skrif­stofu sinni, af lög­reglu­stjóra, þess efnis. Þegar hann bað um skýringar á því að það ætti að aug­lýsa em­bættið sagði lög­reglu­stjóri við hann að á­stæða þess væru sam­skipta­örðug­leikar hans og annarra starfs­manna em­bættisins.

Maðurinn var búinn að vera lögreglumaður frá árinu 1985.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Sviptur ævistarfinu

Maðurinn sagðist hafa verið sviptur ævi­starfi sínu með þessari á­kvörðun og sagði það ljóst að hann ætti ekki aftur­kvæmt til starfa hjá lög­reglunni á Vestur­landi auk þess sem mögu­leikar hans innan lög­reglunnar al­mennt væru tak­markaðir og að ó­víst hvaða launa­kjör standi honum til boða í fram­tíðinni.

Lög­reglu­maðurinn hélt því fram að á­kvörðun lög­reglu­stjórans að aug­lýsa stöðu hans hefði verið ó­lög­mæt og að ekki hafi verið farið eftir reglum eða lög­boðinni máls­með­ferð í slíkum málum. Maðurinn krafðist þess einnig að fá fjórar milljónir í miska­bætur og vísaði til þess að hátt­semi lög­reglu­stjóra gagn­vart honum hafi falið í sér ó­lög­mæta mein­gerð gegn æru og per­sónu hans og að á­kvörðunin hafi falið í sér mikinn á­lits­hnekki og verið niður­lægjandi í hans garð auk þess sem það var mikið á­fall fyrir hann að fá bréfið í hendur sínar.

Dómurinn kemst að því að vegna þess að lög­reglu­manninum var ekki sagt upp , heldur var staða hans aug­lýst laus, að á­kvörðunin hafi verið tekin á skýrum laga­grund­velli og að hún hafi verið byggð á mál­efna­legum sjónar­miðum. Að baki á­kvörðuninni hafi verið löng saga sam­starfs­örðug­leika sem yfir­menn hafi rætt við hann í­trekað.

Dóm­stóllinn telur ekki miðað við gögnin sem liggja fyrir að lög­reglu­stjóri hafi reynt að koma sér hjá því að fylgja lög­boðinni með­ferð slíkra mála auk þess sem dóm­stóllinn bendir á að em­bættis­menn geti ekki gert kröfu um að skipun stand lengur en skipunar­tími er og að ef það er gert þá er ekki hægt að jafna þá á­kvörðun við upp­sögn eða á­minningar.

Hægt er að lesa dóminn í heild sinni hér.