Heilsu­vernd tekur við rekstri Öldrunar­heimila Akur­eyrar í upp­hafi næsta mánaðar. Heil­brigðis­ráð­herra stað­festi í gær samning Sjúkra­trygginga Ís­lands (SÍ) og Heilsu­verndar Hjúkrunar­heimila um þetta.

Akur­eyrar­bær hefur séð um rekstur hjúkrunarheimilanna síðustu ár en vorið 2020 til­kynnti hann að rekstar­samningurinn við SÍ yrði ekki endur­nýjaður og félli þar með úr gildi 31. desember 2020. Gildis­töku upp­sagnarinnar var síðan frestað um síðustu ára­mót og gerði bærinn fram­halds­samning við SÍ til 30. apríl.

SÍ aug­lýstu síðan í janúar síðast­liðnum eftir aðilum til að annast rekstur hjúkrunar­heimilanna og lýstu tvö einka­fyrir­tæki á­huga á rekstrinum; Heilsu­vernd og Um­önnun sjálfs­eignar­stofnun. Hófust þá við­ræður við bæði fyrir­tæki og var samdi ríkið við Heilsu­vernd í gær, sem tekur við rekstrinum 1. maí.

„Það er á­nægju­legt að þessu máli hafi loksins verið siglt far­sæl­lega í höfn og ég vil nota tæki­færið og þakka starfs­fólki ÖA þá miklu þolin­mæði og þraut­seigju sem það hefur sýnt við erfiðar að­stæður á tímum Co­vid-19,“ er haft eftir Ást­hildi Sturlu­dóttur, bæjar­stjóra á Akur­eyri, í sam­eigin­legri til­kynningu frá bænum, SÍ og Heilsu­vernd.

Teitur Guð­munds­son, fram­kvæmda­stjóri Heilsu­verndar, þakkar traustið sem þeim er sýnt. „Við erum hreykin og hlökkum til að takast á við þetta verk­efni og starfa með þeim góða hópi starfs­manna og stjórn­enda Öldrunar­heimilanna sem hafa verið svona framar­lega í þjónustu við aldraða á Ís­landi,“ segir hann.