Fjár­sýsla ríkisins segir launa­greiðslur hafa verið fram­kvæmdar í sam­ræmi við lög í til­kynningu sem send var frá þeim. „Því er ekki um breytta fram­kvæmd að ræða nú enda hefur fjár­sýslan engar heimildir til að gera annað,“ segir í til­kynningunni.

Mikið upp­nám er á meðal fjölda ríkis­starfs­manna vegna á­kvörðunar Fjár­sýslu ríkisins að borga ekki út laun fyrr en á þriðju­dag. Þetta kemur sér illa enda er stærsta ferða­helgi ársins fram undan.

Fjár­sýsla ríkisins hefur heimild til að beita þessu á­­kvæði, sam­­kvæmt 10. grein laga númer 70/1996 um réttindi og skyldur opin­berra starfs­manna. Stofnunin hefur einungis beitt henni einu sinni áður. Það var í maí síðast­liðnum, en þá héldu margir að um mis­tök væri að ræða.

„Við­skipta­bankarnir hafa unnið að upp­færslu á greiðslu­kerfum sínum á síðustu árum. Í eldri greiðslu­kerfum voru stórar greiðslu­skrár s.s. launa­greiðslur ríkisins, keyrðar hand­virkt utan hefð­bundins á­lags­tíma til að tryggja að greiðslur næðu örugg­lega að skila sér á réttum tíma,“ segir í til­kynningunni.

„Þetta þýddi að í ein­hverjum til­fellum gerðu bankarnir þessar greiðslur að­gengi­legar fyrir fyrsta dag mánaðar þótt greiðslu­dagur launa væri fyrsta virka dag næsta mánaðar.“

Fjár­sýslan segir að á undan­förnum árum hafi verk­lag bankanna verið að breytast og frá febrúar 2022 hafi laun al­farið verið greidd með nýju greiðslu­kerfi bankanna, en þá berast greiðslur við­tak­endum fyrsta virka dag hvers mánaðar.