Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra leggur í dag fram frumvarp til laga á Alþingi sem kveður á um breytingu á fjölmiðlalögum. Markmiðið er að styrkja lýðræðishlutverk fjölmiðla með því að styðja við og efla útgáfu á fréttum og fréttatengdu efni. Gert er ráð fyrir að kostnaður við frumvarpið verði allt að 520 milljónum króna árlega.

Gert er ráð fyrir tvíþættum stuðningi við einkarekna fjölmiðla, sem ætlað er að stuðla að sanngirni og tæknilegu hlutleysi við dreifingu endurgreiðslunnar. Endurgreiðsluhæfur kostnaður verður bundinn við beinan launakostnað blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara auk verktakagreiðslna fyrir sömu störf. Fram kemur að hlutfall endurgreiðslu verði að hámarki 25% af þessum launakostnaði en þó ekki hærri upphæð en 50 milljónir ti hvers umsækjenda á ári.

Þá er heimild til að veita staðbundnum fjölmiðlum viðbótar endurgreiðslu. Veita megi fjölmiðlum endurgreiðslu ritstjórnarkostnaðar sem nemur allt að 5,15% af þeim launum starfsfólks ritstjórnar sem falla undir lægra skattþrep tekjustofna.

Árlegur kostnaður fyrir ríkissjóð verður allt að 520 milljónum á ári, frá og með 1. janúar 2020.

Í tilkynningu frá Menntamálaráðuneytinu kemur fram að fyrir lok árs verði lagt mat á það hvort dregið verði úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði eða að fjármögnun starfseminnar verði einungis byggð á opinberum fjármunum.

Ellefu ófrávíkjanleg skilyrði eru sett fyrir endurgreiðslu; þar á meðal er kveðið á um að 40% efnisins sé ritstjórnarefni og að fjölmiðillinn hafi skilað árlegri skýrslu til fjölmiðlanefndar og sé ekki í vanskilum við opinbera aðila eða lífeyrissjóði. Þá er meðal annars kveðiði á um að efni sé útgefið að lágmarki 48 sinnum á ári og að umfjöllunarefnið sé samfélagsleg málefni.