Albert Klahn Skaftason, Guðjón Skarphéðinsson og Kristján Viðar Júlíusson fengu í gær greiddar bætur úr ríkissjóði á grundvelli laga um bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum sem kveðinn var upp í fyrra. Einnig voru greiddar bætur til maka og barna Tryggva Rúnars Leifssonar og Sævars Marinós Ciesielski. Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Fréttablaðið.

Við samþykkt laganna tók forsætisráðuneytið við keflinu af ríkislögmanni um ákvörðun bótafjárhæða. Ráðuneytið gerði sjálfstætt mat á þeim fjárhæðum sem sáttanefndin lagði til að greiddar yrðu og vísað er til í athugasemdum með lagafrumvarpinu.

Bætur hækkaðar til afkomenda Sævars

Það var niðurstaða skoðunnar ráðuneytisins að gera ekki breytingar á bótafjárhæðum nema í tilviki bóta til afkomenda Sævars Marinós og voru þær hækkaðar um alls 15 milljónir. Fá afkomendur hans því samtals 239 milljónir í bætur á grundvelli laganna. Þá var greiddur lögmannskostnaður sem nemur fimm prósentum af bótafjárhæðum. Alls nema greiðslur á grundvelli laganna því 815 milljónum.

Bótafjárhæðir

Albert Klahn Skaftason - 15 milljónir,

Guðjón Skarphéðinsson - 145 milljónir,

Kristján Viðar Júlíusson - 204 milljónir,

Aðstandendur Tryggva Rúnars Leifssonar - alls 171 milljón,

Aðstandendur Sævars Marinós Ciesielski - alls 239 milljónir.

Geta sótt frekari bætur fyrir dómstólum

Bæturnar eru skattfrjálsar og skerða ekki bætur almannatrygginga eða sambærilegar greiðslur.

Eins og fram kemur í lögunum kemur greiðsla bóta á grundvelli þeirra ekki í veg fyrir að bótaþegar geti höfðað sérstakt bótamál fyrir dómstólum til heimtingar frekari bóta. Enn sem komið er hefur Guðjón Skarphéðinsson einn málsaðila stefnt ríkinu til heimtingar bóta.