Ríkið krefst sýknu af öllum bótakröfum Guðjóns Skarphéðinssonar sem sýknaður var af aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar í fyrra þegar sakfellingardómi Hæstaréttar frá 1980 var snúið við.

Kröfu ríkisins um sýknu er lýst í greinargerð ríkislögmanns sem lögð var fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Þess er einnig krafist að Guðjón verði dæmdur til að greiða ríkinu málskostnað.

Krefst milljarðs fyrir frelsisviptingu í 1792 daga

Í stefnu Guðjóns sem þingfest var í júní er gerð krafa um rúma 1,3 milljarða í bætur fyrir ólöglega frelsisskerðingu vegna Geirfinnsmálsins.

Guðjón var frelsissviptur í 1792 daga og gerir kröfu um 972.192.250 kr. ásamt dráttarvöxtum. Er fjárhæðin fundin með sömu reiknireglu og miðað var við í dómi Hæstaréttar um bætur til fjögurra manna sem sátu í rúma 100 daga í gæsluvarðhaldi vegna sama máls.

Í greinargerð ríkisins er því hafnað að mál fjórmenningana geti talist fordæmi um bætur til Guðjóns. Ekki sé saman að jafna máli Guðjóns og fjórmenningana þar sem sannað telst að sakir hafi af ásetningi verið bornar á nefnda aðila með samanteknum ráðum án þess að þeir hafi tengst málinu á nokkurn hátt. Virðist ríkislögmaður líta svo á að mál Guðjóns sé annars eðils.

Þótt mál Guðjóns og annarra dómfelldu í málinu sé af flestum talið fordæmalaust hér á landi hefur lögmaður Guðjóns leitt rök að því að mál fjórmenningana sé eina nærtæka fordæmið sem til er enda hafi Guðjón verið vistaður á sama stað og þeir, í Síðumúlafangelsi, vegna rannsóknar sama máls.

Af gögnum málsins er þó ljóst að fjórmenningarnir fengu um margt betri meðferð en aðrir sem grunaðir voru og höfðu til að mynda mun betri aðgang að verjendum sínum.

Krefst einnig bóta vegna pyndinga

Krafa Guðjóns um miskabætur takmarkast ekki eingöngu við frelsissviptingu heldur krefst hann einnig miskabóta fyrir:

 • Ólöglega handtöku,
 • ólöglega símahlerun,
 • ólöglega leit,
 • ólöglega læknisrannsókn,
 • pyndingar,
 • ómannúðlega og vanvirðandi meðferð
 • brot á rétti til réttlátrar málsmeðferðar,
 • ranga áfellisdóma Sakadóms og Hæstaréttar,
 • ólöglega afplánun,
 • ólöglegt skilorð í fjögur ár,
 • opinberar yfirlýsingar dómstóls og ráðherra um sekt,
 • fjölmiðlaumfjöllun,
 • brot gegn mannlegri reisn,
 • brot á vernd æru og mannorðs,
 • afleiðingar frelsissviptingar á andlega og líkamlega heilsu og
 • brennimerkingu um sekt frá sakfellingu til sýknudóms 2018.

Guðjón hafi sjálfur stuðlað að aðgerðum gegn sér

Ríkið hafnar öllum málatilbúnaði Guðjóns, meðal annars með vísan til þess að dómkrafa hans sé fyrnd en að öðru leyti hafi Guðjón sjálfur stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir bótakröfur sínar á.

Um þetta er meðal annars vísað til málsatvika eins og þeim er lýst í sakfellingardómi Hæstaréttar frá 1980, en ríkislögmaður telur þann dóm hafa sönnunargildi um málsatvik þar eð sýknudómur Hæstaréttar frá því í fyrra fjalli ekkert um þau. Önnur gögn á borð við sérfræðiálit um falskar játningar telur ríkislögmaður ekkert sönnunargildi hafa í málinu.

Í greinargerðinni segir með vísan til lýsingar á samskiptum Guðjóns við rannsóknaraðila, fulltrúa hjá sakadómi, verjendur, fangelsisprest og fleiri, að ekki verði ráðið „að stefnandi (Guðjón) hafi verið beittur ólögmætri þvingun eða einhverskonar harðræði, í þá veru sem stefnandi byggir nú á."

Ekki er í greinargerðinni tekið mark á mati Gísla Guðjónssonar réttarsálfræðings um falskan framburð Guðjóns, sem var meðal helstu forsendna þess að dómur Hæstaréttar var endurupptekinn.

Andri Árnason, settur ríkislögmaður.

Forsætisráðherra setti Andra Árnason ríkislögmann þegar Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður lýsti sig vanhæfan til að fara með málið en hann er sonur Hallvarðs Einvarðssonar sem var vararíkissaksóknari á áttunda áratugnum og kom mjög svo að Guðmundar- og Geirfinnsmálum.

Ríkisstjórnin komist upp með dómsmorðin

Ragnar Aðalsteinsson, verjandi Guðjóns, er harðorður í garð ríkisstjórnarinnar og forsætisráðherra vegna þeirrar afstöðu sem lýst er í greinargerðinni.

„Í kröfugerðinni og röksemdum felst afstaða ríkisstjórnarinnar, sem gefur lögmanni sínum fyrirmæli, til bótakrafna þeirra sem sýknaðir voru. Þeir eigi ekki neinn rétt á skaðabótum úr hendi ríkisins fyrir þá meingerð sem ríkið olli þeim með refsidómum sem eru ígildi dómsmorða,“ segir Ragnar og bætir við: „Ríkisstjórnin ætlar sér að komast upp með dómsmorðin án nokkurra afleiðinga fyrir ríkið og af fullkomnu ábyrgðarleysi.“

Ragnar vísar til afsökunarbeiðni forsætisráðherra en hún sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu daginn sem sýknudómurinn féll í Hæstarétti í september í fyrra:

Ríkisstjórnin fagnar málalyktum í einu umdeildasta sakamáli Íslandssögunnar.

Ég beini orðum mínum til fyrrum sakborninga, aðstandenda þeirra og annarra sem átt hafa um sárt að binda vegna málsins.

Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar bið ég ykkur afsökunar á því ranglæti sem þið hafið mátt þola."

(Úr yfirlýsingu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í kjölfar sýknudóms Hæstaréttar)

Réttur Guðjóns skýr í lögum og stjórnarskrá

Í 67. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um rétt manns til skaðabóta hafi hann verið sviptur frelsi að ósekju. Þá eru sambærileg ákvæði í Mannréttindasáttmála Evrópu og er þar kveðið á um að slíkur bótaréttur þurfi að vera raunhæfur. Í 7. viðauka er sérstaklega kveðið á um rétt þeirra til bóta sem hafa verið ranglega sakfelldir. Þar segir:

Nú hefur maður verið fundinn sekur um afbrot í lokadómi en síðar verið sýknaður eða náðaður vegna þess að ný eða nýupplýst staðreynd sýnir ótvírætt að réttarspjöll hafa orðið og skal sá sem hefur þolað refsingu vegna slíkrar sakfellingar fá bætur samkvæmt lögum eða réttarvenjum viðkomandi ríkis, nema sannað sé að honum sjálfum var að öllu eða nokkru leyti um að kenna að hin óþekkta staðreynd var ekki látin upp í tíma.

Þá er kveðið á um hlutlægan bótarétt vegna frelsissvipingar að ósekju í lögum um meðferð sakamála. Sá réttur Guðjóns er viðurkenndur í skilabréfi svokallaðrar sáttanefndar forsætisráðherra þar sem segir:

Um var að ræða fimm dómþola sem sýknaðir voru í umræddum dómi Hæstaréttar og einungis þrir þeirra á lífi. Ljóst var því að réttur þeirra til bóta var ekki sá sami. Þrír þeirra sem á lífi eru eiga skýran rétt til bóta á grundvelli laga um meðferð sakamála."

Krafa Guðjóns talin fyrnd

Í greinargerð ríkisins er byggt á því að bótakrafa Guðjóns sé fyrnd. Er vísað til laga sem giltu á áttunda áratugnum, þegar Geirfinnsmálið var til rannsóknar. Í þeim var kveðið á um sex mánaða fyrningarfrest bótakrafna í kjölfar sýknudóms. Lögin sem ríkið vísar til eru löngu brottfallin en ríkið telur þau eiga að gilda um kröfur Guðjóns þar sem þau voru í gildi er þau atvik urðu sem Guðjón telur bótaskyld.

Ekki er í greinargerð ríkisins tekið mið af þeim sáttaviðræðum sem forsætisráðherra boðaði til strax í kjölfar uppkvaðningar dómsins í umfjöllun ríkisins og sex mánaða fyrningarfrestur talinn eiga að hefjast við dómsuppkvaðningu. Sáttaumleitanir stóðu fram á vor og lagði sáttanefnd forsætisráðherra fram tilboð um greiðslu fjárhæðar til Guðjóns 28. mars síðastliðinn en þá voru sex mánuðir liðnir frá uppkvaðningu dómsins 27. september 2018.

Vísað til brottfallina laga um þrengri rétt

Réttur til bóta var umtalsvert þrengri í þeim brottföllnu lögum um meðferð opinberra mála sem ríkið telur að byggja eigi á. Gera má ráð fyrir að deilt verði um það fyrir dómi hvort taka eigi mið af eldri lögum eða gildandi lögum en til eru dómafordæmi þar sem menn eru látnir njóta rýmri réttar í nýrri lagaákvæðum. Á það meðal annars við um dóm í bótamáli Sigurþórs Arnarsonar (Vegasmál).

Í þeim brottföllnu lögum sem ríkið telur að byggja eigi á var kveðið á um að bætur fyrir gæsluvarðhald mætti aðeins greiða ef sökunautur hefði ekki með vísvitandi og stórvægilega gáleysislegu ólögmætu framferði valdið þeim aðgerðum sem hann reisti kröfu sína á. Er í greinargerð ríkisins vísað til fjölmargra ummæla Guðjóns í lögregluskýrslum og skýrslum fyrir dómi meðan á rannsókn málsins stóð sem renna eiga stoðum undir ábyrgð Guðjóns sjálfs á aðgerðum rannsakenda.

Telja sakfellingardóm hafa sönnunargildi

Að mati ríkisins hefur sakfellingardómur Hæstaréttar frá 1980 fullt sönnunargildi í málinu, um málsatvik sem þar eru rakin ítarlega „þar til það gagnstæða er sannað“.

Sýknudómurinn frá 2018 hafi ekki vægi um annað en úrslit sakarefnis en í honum sé ekki fjallað um málsatvik heldur einungis vísað til kröfugerðar ákæruvaldsins.

Að þessu sögðu eru færð rök fyrir því að þau gögn, sem aflað hefur verið á undanförnum árum til að styðja við endurupptöku og að lokum sýknu Guðjóns, geti ekki talist til sönnunargagna í málinu. Vísar ríkið meðal annars til „meints vanhæfis sérfræðiráðgjafa“ eins og þar stendur og er þar átt við Gísla Guðjónsson réttarsálfræðing en hann komst að þeirri niðurstöðu í sérfræðiáliti að játningar Guðjóns í málinu væru falskar. Engu var þó slegið föstu um vanhæfi Gísla en hann starfaði hjá lögreglunni á þeim tíma sem málið var til rannsóknar. Hann var þá í doktorsnámi í sálfræði. Hann gaf nokkuð ítarlega skýrslu í fyrirtöku í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2016 þar sem hann svarði spurningum um starf sitt á umræddum tíma.

Gísli Guðjónsson.jpg

Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur komst að þeirri niðurstöðu að játningar Guðjóns í málinu væru rangar.

Sönnunargildi nýrra gagna í málinu takmarkað

Úrskurður endurupptökunefndar í máli Guðjóns telur 922 blaðsíður og hefur meðal annars að geyma ítarlega útlistun á sönnunargildi og áreiðanleika játninga, aðstæðum í gæsluvarðhaldi og einangrun, lyfjagjöf, rannsóknar- og yfirheyrsluaðferðum, aðgengi að verjanda, greiningu á því hvort sönnunargögn hafi verið rangt metin og hvort verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins.

Að mati ríkisins getur úrskurður endurupptökunefndar ekki gengið framar sakfellingardómi Hæstaréttar frá 1980 sem sönnunargagn um málsatvik, enda hið síðarnefnda dómur.

Ragnar Aðalsteinsson lögmaður segir fullyrðingar ríkisins um sönnunargildi nýrra gagna og gildi sýknudómsins rangar. Þvert á það sem ríkislögmaður haldi fram, hafi Hæstiréttur fallist á mat endurupptökunefndarinnar í fyrra en í dómi Hæstaréttar segir: „Hvorki eru sérstakir annmarkar á málsmeðferð endurupptökunefndar né mati hennar á þýðingu nýrra gagna.“

Ávirðingar gagnvart lögreglu sagðar "ósannaðar með öllu"

Þá hafnar ríkið málsástæðum Guðjóns um ólögmætar rannsóknaraðferðir rannsakenda málsins og ómannúðlega meðferð sem hann mátti þola en til hennar var meðal annars vísað í afsökunarbeiðni forsætisráðherra í fyrra. Í greinargerð ríkisins segir um þetta: „Af hálfu stefnda [ríkisins] er öllum ávirðingum gagnvart lögreglu og dómstólum, svo og ásökunum um meinta refsiverða háttsemi lögreglu, ákæruvalds og dómstóla [...] hafnað, enda ósannaðar með öllu.“