Ríkið græddi rúma 56 milljarða króna af uppboði losunarheimilda og innheimtu kolefnisgjalds á árunum 2010-2021. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um tekjur af losun gróðurhúsalofttegunda.

Fyrirspurn Andrésar Inga var í fimm liðum. Í fyrsta lagi spurði hann hverjar árlegar tekjur ríkisins hafi verið af uppboði losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda og hversu hátt hlutfall af uppboðstekjunum hafi runnið til loftslagsaðgerða á hverju ári.

Fram kemur í svari ráðherra að tekjur ríkisins við sölu losunarheimilda hafi verið rúmir 10,4 milljarðar króna árin 2019-2021. Tekjur af þessari sölu renna beint í ríkissjóð án mörkunar til ákveðinna verkefna en þá er tekið fram að framlög ríkisins til loftslagsmála séu rúmir 15 milljarðar 2022 eða „u.þ.b. 50% hærri en tekjur af sölu losunarheimilda frá upphafi“.

Í þriðja lagi spurði Andrés Ingi hverjar árlegar tekjur ríkisins af kolefnisgjaldi hefðu verið frá því að innheimta þess hófst og hversu hátt hlutfall þess hafi runnið til loftslagsaðgerða á hverju ári. Fram kemur í svari ráðherra að tekjur ríkisins við innheimtu kolefnisgjalds hafi samtals numið tæpum 45,6 milljörðum króna á árunum 2010-2021. Þá er einnig ítrekað að tekjur ríkisins af kolefnisgjöldum renni beint í ríkissjóð án mörkunar í ákveðin verkefni.