Hæfnisnefnd gerði lítið úr reynslu kvenkyns umsækjanda á sama tíma og reynslu karlkyns umsækjanda var gert hátt undir höfði þrátt fyrir takmarkaða reynslu á sama sviði.

„Hún starfaði við opinbera stjórnsýslu,“ skrifaði hæfnisnefndin um Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra hjá forsætisráðuneytinu sem hefur starfað í opinberri stjórnsýslu í 25 ár, verið forstöðumaður nefndarsviðs Alþingis, skrifstofustjóri í tveimur ráðuneytum og aðallögfræðingur Alþingis og Samkeppniseftirlitsins.

„Hann hefur langa reynslu við ábyrgðarmikil stjórnsýsluverkefni,“ var skrifað um Pál Magnússon, sem hefur meistarapróf í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og hefur starfað sem bæjarritari hjá Kópavogsbæ og sem aðstoðarmaður ráðherra.

Þetta kom fram í aðalmeðferð í máli íslenska ríkisins gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra hjá forsætisráðuneytinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Lilja D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra stefnir Hafdísi Helgu til þess að ógilda úrskurð kærunefndar jafnréttismála um að ráðherrann hafi brotið lög með því að vanmeta konu í samanburði við karl.

Hafdís segir ljóst að þetta sé mikill blæbrigðamunur. Lögmaður Hafdísar bendir á að karlmaður sem ráðinn var í starfið hafi enga reynslu af þremur málaflokkum sem eru fyrirferðamestir í starfi allra ráðuneyti: samning lagafrumvarpa, innleiðingu EES reglugerða og lög um opinber fjármál og fjárveitingar.

„Það er tilhneiging að gera körlum hærra undir höfði,“ sagði lögmaður Hafdísar.

Víðir Smári Peterson lögmaður íslenska ríkisins og Áslaug Árnadóttir lögmaður Hafdísar Helgu.

„Þetta hefur enginn ráðherra gert áður“

Málið má rekja til ársins 2019 þegar Hafdís Helga sótti um starf ráðuneytisstjóra. Hún fékk ekki starfið þrátt fyrir að vera talin hæf og var karlmaður skipaður í embættið. Hafdís Helga kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála sem komst að þeirri niðurstöðu að mennta- og menningarmálaráðherra hafi brotið jafnréttislög með því að skipa Pál Magnússon í embætti ráðuneytisstjóra í stað Hafdísar.

Lilja brást við úrskurðinum með því að höfða mál gegn Hafdísi til að ógilda úrskurð kærunefndarinnar. Þessi ákvörðun vakti mikla athygli enda eru engin dæmi um að ráðherra hafi höfðað mál persónulega gegn starfsmanni ríkisins.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Ráðherra hafði ekki samband við stefndu og reyndi ekki að leita sáttar, heldur brást við úrskurðinum með því að höfða mál gegn stefndu. Þetta hefur enginn ráðherra gert áður,“ sagði Áslaug Árnadóttir, lögmaður Hafdísar í munnlegum málflutningi í aðalmeðferð í héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Þetta er síðasta dómsmál sem verður höfðað á Íslandi af þessu tagi en vegna nýrra laga er ekki hægt að stefna einstaklingi vegna úrskurðar kærunefndar heldur verður að höfða mál gegn kærunefndinni sjálfri héðan í frá. Dómur verður sennilega kveðinn upp í lok febrúar.

Félag háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins fordæmdi ákvörðun ráðherrans í ályktun síðasta sumar. „Fyrrgreind málshöfðun getur haft það í för með sér að umsækjendur veigri sér við að sækja lögvarinn rétt sinn. Auk þess að setja félagsmanninn í fordæmalausa stöðu gagnvart ráðherra er hætt við að stefnan muni fæla hæfa umsækjendur frá því að sækja um störf hjá ríkinu.“

„Þrátt fyrir þetta hunsar ráðherra algjörlega kærunefndina og svarar henni varla.“

Páll Magnússon var ráðinn í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Aðrir umsækjendur heyrðu fyrst af því í fjölmiðlum áður en þeim var tilkynnt um ráðninguna.
Mynd: Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Páll hafi staðið sig betur í viðtalinu

Lögmaður íslenska ríkisins sagði Pál hafa staðið sig betur í atvinnuviðtalinu og að það væri ekki hægt að líta framhjá huglægu mati nefndarinnar og ráðherra um leiðtogahæfni hans. Að þeirra mati var Páll tveimur flokkum fyrir ofan Hafdísi í tengslum við leiðtogahæfileika.

„Páll þótti standa sig betur í viðtalinu. Sýn Páls var heildstæð. Hann var með góða leiðtogahæfileika og sagði frá fjölmörgum hugmyndum um umbótaverkefni,“ sagði Víðir Smári Petersen, lögmaður íslenska ríkisins.

Svör Hafdísar í viðtalinu hafi borið vott um áræðni og drifkraft en svörin hennar verið afmörkuð og ekki miðlað skýrri framtíðarsýn á nálgun hennar í starfinu.

Hafdís lét fylgja með umsókn sinni lista yfir greinar sem hún hefði ritrýnt og lagafrumvörp sem hún hefði unnið að. Ekki var getið um ritverk í umsókn Páls. Hæfnisnefnd dró þá ályktun að hann væri mjög vel hæfur til að tjá sig í riti á grundvelli tveggja blaðsíðna umsóknar og kynningarbréfs. Kærunefnd jafnréttismála gerði alvarlega athugasemd um þetta og taldi rökstuðning um hæfni Páls vera ófullnægjandi.

Víðir Smári sagði að það ætti frekar að gera samanburð milli allra umsækjenda í stað Hafdísar og Páls, enda hafi tvær konur verið metnar hæfari en Hafdís. Áslaug svaraði að það gæti vel verið að þeim hafi einnig verið mismunað vegna kyns en í máli sem þessu væri einungis nauðsynlegt að geta sýnt fram á að Hafdís hefði fengið óhagstæðari meðferð en karlinn sem fékk stöðuna.

Fréttablaðið/Pjetur Sigurðsson

Staðreyndarvillur í umsögninni

Lögmaður Hafdísar gerði athugasemd við að hæfnisnefndin hafi ekki notað neinar aðferðir til að meta leiðtogahæfni umsækjendanna nema með spjalli. Rannsóknir sýni að viðtöl gefi ekki góða mynd, próf og verklegar æfingar gefi langbestu svörin. Eins var mikið um staðreyndarvillur í umsögn nefndarinnar úr atvinnuviðtalinu við Hafdísi.

„Punktarnir sem voru ritaðir upp úr viðtölunum voru fullir af rangfærslum og misskilningi. Hin stefnda kannaðist ekki við helminginn sem haft var eftir henni, margt var tekið úr samhengi eða misskilið,“ segir Áslaug og bendir á að nefndin hafi sagt Hafdísi hafa starfað hjá fjármálaráðuneytinu til ársins 2012. Það sé hreinlega rangt, þar sem Hafdís starfaði hjá ráðuneytinu til ársins 2016, það var árið 2012 sem ráðuneytið breytti nafni sínu í fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Einar Hugi Bjarnason, formaður hæfnisnefndarinnar sem Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra skipaði til þess að meta umsækjendur um stöðu ráðuneytisstjóra.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Frétt uppfærð 28. janúar, 2021.