Fjárfestar sem tóku þátt í útboðinu á hlut ríkisins í Íslandsbanka eru margir ósáttir við að listi yfir kaupendur hafi verið opinberaður. Jakob Valgeir Flosason, einn fagfjárfestanna, segir það skiljanlegt. „Slíkar upplýsingar hreyfa samt lítið við mér núorðið. Ég er orðinn öllu vanur.“ Hann segist hafa meiri áhyggjur af verðinu sem ríkið fékk fyrir hlutinn. Það hafi verið algjör óþarfi að gefa svona mikinn afslátt.

Jakob keypti fyrir tæpan milljarð í útboðinu og heldur þar af leiðandi á 1,8 prósenta hlut í bankanum. Hann segir kaupendur einfaldlega hafa fylgt reglum útboðsins og uppfyllt skilyrðin sem lagt var upp með. Það sé í raun ekkert við það að athuga.

„Ef menn vilja gagnrýna eitthvað þá ættu þeir að horfa á verðið sem ríkið seldi á. Að mínu mati hefði ríkið átt að selja til fárra en öflugra kjölfestufjárfesta, eins og talað var um í upphafi. Það var ekki gert. Í staðinn voru það aðallega lífeyrissjóðirnir sem pressuðu verðið niður í þessar 117 krónur á hlut. Ég veit það fyrir víst að ríkið hefði getað selt á genginu 122 ef þeir hefðu einbeitt sér að þeim sem voru tilbúnir til að borga meira. Það er það sem mér finnst alvarlegt í þessu.“

Jakob óskaði sjálfur eftir að fá að kaupa mun stærri hlut í bankanum en hann á endanum keypti. „Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar það sé bankanum fyrir bestu að nokkrir öflugir fjárfestar komi inn af krafti og veiti honum aðhald. Þannig gæta þeir best sinna hagsmuna og hagsmuna bankans um leið. Það var það sem vakti fyrir mér. Þá hefði líka þjóðin fengið meira fyrir sinn snúð.“

Þrjú skilyrði fyrir kaupum í útboði

Almennum fjárfestum stóð ekki til boða að kaupa í Íslandsbanka að þessu sinni heldur var ákveðið að leita eingöngu til fagfjárfesta. Ástæðan er sú að almennt útboð krefst margra mánaða undirbúnings. Á þeim tíma getur virði bréfa á markaði sveiflast til. Þar sem eitt af markmiðum útboðsins var að fá gott verð fyrir hlut ríkisins í bankanum var ákveðið að vinna málið hratt.

Þeir sem sóttu um voru metnir í samræmi við lög sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu um útboð til fagfjárfesta. Þannig var ákveðið hverjir fengu að kaupa og hverjir ekki. Skilyrðin sem liggja til grundvallar eru þrjú. Þau lúta meðal annars að umsvifum á mörkuðum, eiginfjárstöðu, reynslu og þekkingu. Til að komast í hóp kaupenda þurftu fjárfestar að uppfylla tvö af þeim.