Fanney Rós Þor­steins­dóttir ríkislögmaður segir að sættir hafi verið reyndar í kæru­máli Magnúsar Davíðs Norð­­dahl, fram­bjóðanda Pírata í Norð­­vestur­­kjör­dæmi í síðustu alþingis­kosningum, og Guðmundar Gunnarssonar, frambjóðanda Viðreisnar.

Magnús og Guðmundur kærðu þá ákvörðun Alþingis til Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu að staðfesta síðari kosningaúrslitin þrátt fyrir brotalamir við talningu og framkvæmd.

„Við báðum um aukafrest til svara en munum skila af okkur fyrir 13. október næstkomandi,“ segir Fanney Rós ríkislögmaður.

Spurð hvort sættir hafi verið reyndar, játar hún að svo sé. Spurð hvort það feli í sér viðurkenningu á broti segir ríkislögmaður það ekki endilega svo.

„Þetta mál varðar grundvallarspurningar um kosningakerfið,“ segir ríkislögmaður og lýsir málinu sem tímafreku og yfirgripsmiklu hvað gögn varðar.

„Ég hef frá upphafi verið bjartsýnn hvað varðar þennan málarekstur,“ segir Magnús Davíð.

„Ferlið, sem tók við eftir kosningarnar þar sem Alþingi samþykkti eigin kjör og lagði blessun sína yfir verklagið í Norðvesturkjördæmi, braut gegn Mannréttindasáttmála Evrópu.

Ríkið ætti að sjá sóma sinn í því að viðurkenna brot sitt án tafar, ráðast í nauðsynlegar lagabreytingar og bæta tjón þeirra sem hlut áttu að máli.“

Magnús Davíð segir að uppspretta valdsins í samfélaginu sé í þingkosningum.

„Löggjafarvaldið velur hverjir fara með framkvæmdavald sem síðan skipar þá sem fara með dómsvald. Heilindi kerfisins í heild eru því undir í þessu mikilvæga lýðræðismáli.“