Yfir 40 prósent landsmanna telja að þjónusta við fatlað fólk eigi að vera að öllu eða mestöllu leyti á ábyrgð ríkisins.

Þetta kemur fram í könnun sem Gallup framkvæmdi fyrir Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ).

Málefni fatlaðs fólks voru flutt frá ríki til sveitarfélaga árið 2011. Í könnuninni var spurt: Hvort telur þú að þjónusta við fatlað fólk eigi frekar að vera á ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga?

42,1 prósent þeirra sem tóku afstöðu telur að hún eigi að vera á ábyrgð ríkisins, 36,6 prósent til jafns á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga en 21,3 prósent telja að þjónustan eigi að vera á ábyrgð sveitarfélaga.

Bergþór Heimir Þórðarson, varaformaður ÖBÍ, kynnti niðurstöður könnunarinnar á fyrsta fundi fundarherferðar ÖBÍ og Þroskahjálpar sem hófst í gær.

Um netkönnun var að ræða og var úrtakið 1.644 einstaklingar af öllu landinu, átján ára og eldri. Svarhlutfall var 51,3 prósent.