Mál fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg hefur verið fellt niður hjá Mannréttindadómstól Evrópu vegna dómsáttar sem hann hefur náð við íslenska ríkið.

Dómsátt hefur verið gerð milli íslenska ríkisins og Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, vegna máls Magnúsar hjá Mannréttindadómstól Evrópu (MDE). Málið var af þessum sökum fellt niður hjá MDE í gær.

Eins og Fréttablaðið greindi frá féllst MDE á að taka mál hans til efnislegrar meðferðar í júní í fyrra.

Sakfelldur í Hæstarétti eftir sýknu í héraði

Magnús var sakfelldur fyrir aðild að markaðsmisnotkun og umboðssvik í svokölluðu markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í Hæstarétti árið 2016. Með sakfellingunni var dómi héraðsdóms snúið við að hluta en þar var tveimur ákæruliðum á hendur Magnúsi vísað frá dómi en hann sýknaður af öðrum ákærum.

Hann byggði kæru sína til MDE á því að tveir dómarar við Hæstarétt, Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Örlygsson, hafi verið vanhæf til að fella dóm á mál hans vegna starfa sona þeirra. Sonur Ingveldar var aðstoðarsaksóknari hjá sérstökum saksóknara og sonur Þorgeirs var yfirlögfræðingur hjá slitastjórn Kaupþings.

Sáttin byggð á Al-Thani fordæmi MDE

Með dómsáttinni afsalar Magnús sér rétti til að gera frekari kröfur á hendur ríkinu í málinu en ríkið viðurkennir, með vísan til dóms MDE í Al-Thani málinu, að brotið hafi verið gegn rétti Magnúsar til réttlátrar málsmeðferðar, en í því máli komst MDE að þeirri niðurstöðu að hæfi dómarans Árna Kolbeinssonar hefði ekki verið hafið yfir vafa en sonur hans starfaði fyrir bankann, bæði fyrir fall hans og eftir að hann varð gjaldþrota.

Í sáttinni er einnig viðurkenndur réttur Magnúsar til að óska eftir endurupptöku málsins á grundvelli gildandi laga. Ríkið fellst einnig á að greiða Magnúsi 15.000 evrur, eða rúmar 2,2 milljónir króna, í bætur.