Íslenska ríkið var í dag sýknað af skaðabótakröfu læknis sem taldi honum hafa verið mismunað á grundvelli kynferðis þegar annar læknir var ráðinn í starf yfirlæknis æðaskurðdeildar Landspítalans, sem auglýst var 23. júní 2012, laus til umsóknar. Þrír einstaklingar alls sóttu um starfið. Þau Stefán Einar Matthíasson, Helgi H. Sigurðsson og Lilja Þyrí Björnsdóttir.

Helgi H. Sigurðsson kærði ákvörðunina til héraðsdóms og sagði sig eiga rétt á miskabótum vegna þess að honum hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis. Vísaði hann í annan dóm og ákvörðun jafnréttisnefndar frá árinu 2012, en þriðji umsækjandinn, Stefán Einar Matthíasson, hafði kært ákvörðunina til nefndarinnar.

Öll talin hæf

Stefán kærði ákvörðunina til kærunefndar jafnréttismála sem komst að þeirri niðurstöðu að spítalinn hefði með ráðningunni brotið gegn lögum um jafnan rétt karla og kvenna. Í ágúst sama ár komst stöðunefnd embættis landlæknis að því að allir þrír umsækjendur voru talin hæf til að gegna starfinu og því taldi nefndin ekki ástæðu til innbyrðis röðunar þeirra.

Í umsögn nefndarinnar sagði að þau hefðu öll sérfræðileyfi í almennum skurðlækningum og æðaskurðlækningum. Sérfræðireynsla Stefáns og Helga næði því hámarki sem stöðunefnd mæti, en sérfræðireynsla Lilju væri ívið styttri. Í auglýsingu væri krafist sérstakrar reynslu og þekkingar innan æðaskurðlækninga og legðu Helgi og Lilja fram vottorð þar að lútandi, en Stefán hefði ekki verið í föstu starfi á sjúkrahúsi undanfarin sex ár.

Öll höfðu þau nokkra stjórnunarreynslu, en reynsla Stefáns á því sviði var þó hvað mest auk þess sem hann hafði að baki stjórnunarnám á háskólastigi. Þá kom einnig fram í umsókn Stefáns að hann hafði mesta vísindareynslu, hefði lokið doktorsprófi og hafði einn þeirra þriggja sinnt kennslu í föstu starfi sem dósent.

Landspítalinn höfðaði í kjölfarið mál á hendur Stefáni og krafðist þess að úrskurður kærunefndarinnar yrði felldur úr gildi. Hann var síðar sýknaður af kröfunni því skilyrði til greiðslu miskabóta þarf að vera meðal annars að gáleysi væri verulegt. Var talið að stöðunefnd landslæknis hefði lagt faglegt mat á hæfni allra umsækjenda, metið þau öll þrjú hæf til að gegna starfinu og ekki gert upp á milli þeirra.

Ekki mismunað á grundvelli kynferðis

Því var ekki talið nú að Helgi hefði sýnt fram á, þótt að einhverjir annmarkar hafi verið á ráðningunni, að honum hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti í dag, að engin sönnunargögn hafi verið lögð fram sem bendi til þess að ráðning Lilju Þyríar hafi valdið honum „álitshnekki, kvíða og andlegum áhyggjum“ og bent á í því samhengi að Lilja hafi sinnt starfinu í rúm tvö ár sem starfandi yfirlæknir og hann starfað undir henni allan þann tíma. Við formlega ráðningu hennar „urðu í raun engar breytingar á stöðu og högum stefnanda“

Dómurinn taldi því ráðningin ekki hafa valdið Helga neinum miska og hann því ekki eiga rétt á miskabótum, eins og hann hafði farið fram á.

Dóm Hæstaréttar er hægt að lesa hér í heild sinni.