Ríkið leggur 20 milljónir króna af ráð­stöfunar­fé sínu til endur­reisnar Mið­garða­kirkju í Gríms­ey, nyrstu kirkju landsins, sem brann til kaldra kola í elds­voða þann 22. septem­ber.

Þetta var á­kveðið á fundi ríkis­stjórnarinnar í dag.

Kirkjan var elsta byggingin í Gríms­ey og friðuð árið 1990.

„Mið­garða­kirkja hefur þjónað mikil­vægu sam­fé­lags­legu hlut­verki meðal Gríms­eyinga og eru í­búar stað­ráðnir í að reisa nýja kirkju sem geti nýst bæði við helgi­hald og til menningar­við­burða“, segir í til­kynningu á vef Stjórnar­ráðsins.

Þar kemur enn fremur fram að á­ætlaður heildar­kostnaður við byggingu nýrrar kirkju hlaupi á um 100 milljónum og trygginga­bætur nemi um 30 milljónum. Sóknar­nefnd Mið­garða­kirkju hefur staðið fyrir fjár­öflun vegna endur­reisnar hennar þar sem þegar hafa safnast 12 milljónir króna.

Vonast er til þess að fram­kvæmdir við kirkjuna hefjist næsta sumar og að ný kirkja verði til­búin að utan í septem­ber er ár verður liðið frá brunanum.