Hæsti­réttur sýknaði í dag ís­lenska ríkið af fjögurra milljón króna skaða­bóta­kröfu Ástu Kristínar Andrés­dóttur, sem sætti á­kæru og var síðar sýknuð vegna gruns um mann­dráp af gá­leysi í starfi sínu sem hjúkrunar­fræðingur á Land­spítalanum. Mál hennar hefur nú farið fyrir öll þrjú dóm­stig og þar af leiðandi endan­lega lokið. 

Ástu Kristínu var árið 2013 gefið að sök að hafa gert mis­tök í starfi sínu sem áttu að hafa valdið and­láti sjúk­lings á gjör­gæslu­deild Land­spítalans. Hún var sýknuð af á­kærunni í Héraðs­dómi Reykja­víkur árið 2015. Í fram­haldinu krafðist hún skaða­bóta og sagði ýmsa ann­marka hafa verið á rann­sókn málsins, meðal annars þegar hún var yfir­heyrð á vinnu­stað sínum vegna málsins, þar sem hún játaði á sig brotið. 

Í niður­stöðu Hæsta­réttar segir að út­gáfa á­kæru og höfðun saka­máls geti ekki leitt til bóta­skyldu á grund­velli hlut­lægrar bóta­á­byrgðar. Að auki hafi Ásta Kristín ekki fært sönnur á að lög­regla hafi með sak­næmum og ó­lög­mætum hætti brotið gegn frelsi, friði, æru eða per­sónu hennar. 

„Sú á­lyktun dóms Héraðs­dóms Reykja­víkur 9. desember 2015 að ýmis­legt benti til að hrapað hafi verið að niður­stöðu um það hver hefði verið megin­or­sök and­láts sjúk­lings þess sem lést breytir engu um þá niður­stöðu, enda var hún liður í rök­semda­færslu dómsins fyrir þeirri niður­stöðu að sýkna á­frýjanda af þeirri hátt­semi sem hún var á­kærð fyrir. Verður hinn á­frýjaði dómur því stað­festur,“ segir í dómnum.