Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkinu bæri að greiða hjúkrunarfræðingi bætur vegna slyss sem hann varð fyrir við ummönun sjúklings á Landspítalanum.

Slysið varð með þeim hætti að hjúkrunarfræðingurinn, kona, var að aðstoða mjög þungan og veikan einstakling að klæða sig í sokka. Hann féll af fullum þunga ofan á hjúkrunarfræðinginn, sem sat á hækjum sér með þeim afleiðingum. Við þetta meiddist konan í baki. Hún hafði viðvarandi bakverki eftir slysið.

Landsrétti þótti sannað, líkt og héraðsdómi, að konan hefði sýnt fram á að hún hefði orðið fyrir líkamstjóni við störf sín og að sjúkdómsástand sjúklingsins hafi átt þátt í því hvernig fór en það eru í grófum dráttum forsendur bótagreiðslna.

Ríkið vildi hins vegar meina að hjúkrunarfræðingurinn hefði ekki staðið rétt að því að klæða sjúklinginn í sokka og að umræddur starfsmaður hafi verið með mikla stoðkerfisverki fyrir slysið. Ósannað væri að þetta óhapp hefði valdið verkjunum.

Á þessi rök féllst Landsréttur ekki, frekar en héraðsdómur, og dæmdi því á sömu leið og Héraðsdómur. Ríkið var dæmt til að greiða 900 þúsund krónur í málskostnað en ekki var í þessu máli tekist á um fjárhæð bótanna.