„Við gerum ráð fyrir að tekjurnar verði 700-800 milljónum minni á árinu,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætós, en viðræður eru hafnar við ríkið um að það komi með fjárframlag til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu vegna þess ástands sem nú er uppi af völdum COVID-19 faraldursins.

Á eigendafundi Strætós í byrjun mánaðar kynnti Jóhannes spá stjórnar um rekstrarafkomu ársins 2020, áætlaða sjóðsstöðu í árslok, fyrirliggjandi forsendur stjórnar vegna rekstrarársins og sjóðsstreymisgreiningu KPMG sem unnin var fyrir stjórn Strætós að beiðni Jóhannesar. Rætt var hvernig bregðast mætti við áætlaðri neikvæðri sjóðsstöðu á fyrsta ársfjórðungi 2021 og áætlaðri þörf félagsins fyrir aukið fjárframlag vegna tekjufalls yfirstandandi árs og jafnvel næstu ára af völdum faraldursins.

Ljóst er að Strætó stendur frammi fyrir töluverðu tekjufalli vegna faraldursins, áhrifin vara lengur en í fyrstu var talið og tekjufallið hefur veruleg áhrif á sjóðsstreymi félagsins ásamt því að vagnaflotinn er kominn töluvert til ára sinna.

„Við frestuðum öllum fjárfestingum til að eiga peninga í sjóði til að greiða reikninga,“ segir Jóhannes. Fyrir fundinum lá tillaga um hækkun einstakra vöruflokka í gjaldskrá Strætós vegna rekstrarársins 2021 sem stjórnin samþykkti. Meðaltalshækkun er í um 2,6 prósent.

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó