Ríkustu fimm prósent íslenskra framteljenda áttu rúm 40 prósent alls fjár sem talið var fram til skatts á Íslandi í fyrra. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar.

Af svarinu sem tekur til tekna Íslendinga frá árinu 1998, samkvæmt framlögðum skattframtölum, má sjá að efnamestu Íslendingarnir hafa aukið auðlegð sína umtalsvert á síðustu tveimur áratugum en í svarinu kemur fram að eigið fé þeirra sem mest eiga hefur aukist hlutfallslega í samanburði við eignir allra landsmanna á þeim tíma.

Þar kemur fram að hlutfall eigin fjár fólks í þessum hópi af eigin fé allra landsmanna er hærra nú en það var fyrir 22 árum.

Þau sem tilheyra ríkasta einu prósenti landsmanna áttu samtals 865 milljarða en það stappar nálægt heilum fjárlögum íslenska ríkisins. Um 242 fjölskyldur er að ræða.