518 einstaklingar voru á biðlista eftir innlögn á Vog þann 9. nóvember síðastliðinn. Af þeim voru rúm 30 prósent konur og tæp 70 prósent karlar. Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Söru Elísu Þórðardóttur, varaþingmanns Pírata.

Í svarinu kemur einnig fram að um þriðjungur þeirra sem skrá sig á biðlista nýti ekki þjónustuna þegar hún býðst. Árið 2018 hafi fjöldi beiðna um innlögn verið 3.191 en innritanir 2.275 talsins. Það ár létust átta einstaklingar á biðlista. Árið síðar var fjöldi beiðna 3.339 en innritanir voru 2.137 talsins. Sama ár létust þrettán einstaklingar sem biðu innlagnar. Í ár hefur enginn einstaklingur á biðlista látist en bæði beiðnum og innlögnum hefur fækkað.

Í svari ráðherra kemur fram að ekki liggi fyrir „upplýsingar um orsakir andláts fólks þegar það deyr meðan það bíður þannig að ekki er hægt að draga þá ályktun að biðin hafi orsakað andlátið“.