Rúmlega 20 þingmenn munu leggja fram frumvarp á Alþingi um að almenn sálfræðiþjónusta falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Breið samstaða er um málið en aðilar úr nánast öllum stjórnmálahreyfingum á þingi eru flutningsmenn tillögunnar. „Gráupplagt og eitthvað sem hefði átt að gerast fyrir löngu síðan,“ segir María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans.

Í frumvarpsdrögunum segir að eitt höfuðmarkmiðið sé að tryggja aðgengi einstaklinga að sálfræðiþjónustu. Aðgengi að sálfræðiþjónustu sé lykilatriði þegar kemur að því að greina kvilla snemma og tryggja nauðsynlega meðferð.

Forvarnargildið skiptir miklu máli. Við þurfum sálfræðinga í skóla, heilsugæsluna og nær fólki, ekki bara inni á sjúkrahúsum, það vantar sálfræðinga í forvarnarskyni,“ segir María. „Þegar fólk er að koma á deildina til mín, sem er svokölluð þriðju línu þjónusta, þá hugsar maður oft með sér hvað það hefði verið betra ef brugðist hefði verið fyrr við.“

Ólíkt annarri heilbrigðisþjónustu er sálfræðiþjónusta fyrst og fremst í boði á starfsstofum sjálfstætt starfandi sálfræðinga, án opinbers stuðnings við þá sem þurfa á þjónustunni að halda. Flutningsmenn tillögunnar telja einmitt ekki hægt í núverandi ástandi að fólk fari ekki til sálfræðings vegna þess að það sé hreinlega of dýrt.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er ein þeirra sem hefur keyrt málið áfram og fengið að tillögunni þingmenn úr nánast öllum flokkum. Hún segir mikilvægt að um málið sé breið samstaða til að það náist í gegn, landsmönnum öllum til heilla.

„Með þessu frumvarpi erum við að horfa til nútímans. Það á að vera jafngilt að leita sér lækninga hvort sem það er fyrir andleg veikindi eða líkamleg. Þess vegna viljum við fella sálfræðiþjónustu undir greiðsluþátttökukerfið,“ segir Þorgerður Katrín.

Kostnaðarmat liggur ekki fyrir

Samkvæmt klínískum leiðbeiningum landlæknis á gagnreynd sálfræðimeðferð að vera fyrsti meðferðarkostur við kvíða, þunglyndi og öðrum sálrænum kvillum. Þrátt fyrir þessar leiðbeiningar landlæknis hefur ekki verið að fullu unnið eftir því vegna þess hve dýrt er að fara til sálfræðings.

„Eins og ég skil málið þá er tillagan sú að Sjúkratryggingum verið heimilt að semja við sálfræðinga um kaup á tiltekinni þjónustu. Það er í sjálfu sér jákvætt að þingið fái að glíma við þessa tillögu,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. „Það þarf hins vegar að vera vel skilgreint hvers konar þjónusta er keypt, hvert skipulag hennar á að vera og hvaða gæði þjónustan á að uppfylla. Ríkið sem kaupandi heilbrigðisþjónustu þarf að hafa skýra stefnu um hvað skuli kaupa og ráða ferðinni í þeim efnum. Það sjónarmið verður skoðað gaumgæfilega í umræðum um heilbrigðisstefnu til framtíðar á næstu vikum.“

Ekki hefur farið fram kostnaðargreining en flutningsmenn tillögunnar telja þjóðhagslegan ávinning augljósan af því að fjárfesta í fyrirbyggjandi aðgerðum í geðheilbrigðismálum. Alma Dagbjört Möller, landlæknir, hafði ekki séð umrædd frumvarpsdrög þegar Fréttablaðið náði tali af henni. Hún hins vegar fagnaði því ef slíkt frumvarp næði fram að ganga og taldi það til bóta.

Greiðsluþátttaka mun einnig hafa í för með sér bætt aðgengi allra tekjuhópa að sálfræðingum hér á landi. „Í meginatriðum er afar ánægjulegt að sjá svo breiðan stuðning á þingi við að þjónusta sálfræðinga falli undir greiðsluþátttökukerfi SÍ. Það má segja að með greiðsluþátttöku viðurkenni heilbrigðisyfirvöld loksins gildi og mikilvægi gagnreyndrar sálfræðimeðferðar,“ segir Pétur Maack Þorsteinsson, yfirsálfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands. „Þetta mun vonandi bæta aðgengi að sálfræðingum sem eru sjálfstætt starfandi utan heilbrigðiskerfisins. Í prinsippinu er mjög mikilvægt að allir sjúklingar hafi möguleika á að sækja sér sálfræðiþjónustu, ekki aðeins hinir efnameiri í okkar samfélagi.“

María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, fagnar því að frumvarp sem þetta komi til kasta þingsins og segir það átt að hafa litið dagsins ljós fyrir löngu síðan. „Við þurfum sálfræðinga í skóla, heilsugæsluna og nær fólki, ekki bara inni á sjúkrahúsum, það vantar sálfræðinga í forvarnarskyni,“ segir María.

Líklegt þykir að málið komi til kasta þingsins innan skamms. Verði frumvarpið að lögum myndi það að líkindum þýða nokkurn kostnaðarauka fyrir þjóðfélagið. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að ekki sé búið að kostnaðarmeta frumvarpið.