Þrátt fyrir að lítill snjór sé á götum borgarinnar eru 30 prósent bíla borgarbúa á nagladekkjum. Það hefur aðeins minnkað en á sama tíma í fyrra voru 35 prósent borgarbúa á negldum dekkjum.

Í tilkynningu frá borginni kemur fram að rannsóknir á samsetningu svifryks hafi sýnt að malbiksagnir séu meira en helmingur svifryksagna og vega nagladekk þungt þegar kemur að sliti á götum. Reykjavíkurborg bleytti því helstu umferðargötur.

Í tilkynningu borgarinnar segir að sterkt samband sé milli svifryksmengunar og nagladekkja og af þeim sökum er hlutfall negldra og ónegldra dekkja kannað mánaðarlega yfir veturinn.

Borgin fagni þessari fækkun og segir þetta vera góðar fréttir frá mörgum sjónarhornum því nagladekk spæna upp malbik og skapa loftmengun sem trufli fólk með viðkvæm öndunarfæri.

Í skýrslu Vegagerðarinnar frá 2017 kemur fram að 80 prósent svifryks sem safnað var séu tilkomin vegna bílaumferðar. Eldfjallaaska mældist mikil árið 2013 en hún sé nú horfin. Þá segir í lokaskýrslu til Rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar sem Hrund Ó. Andradóttir, prófessor við Háskóla Íslands, stýrði og var skilað í júní að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telji að loftmengun sé mesta umhverfisógnin við heilsu og valdi ótímabærum dauða sjö milljóna manna á hverju ári.

„Loftmengunin sem veldur einna mestri áhættu fyrir lýðheilsu á Íslandi er svifryk,“ segir í skýrslu Hrundar.