Ríflega þriðjungur þeirra sem látast eru brenndir. Árið 2017 var hlutfallið ríflega 35%. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Vinstri grænna, um bálfarir og kirkjugarða. Hlutfallið hefur aukist smám saman undanfarin fimm ár, en það var 28,6% árið 2013.

Árið 2017 létust 2.240 á Íslandi. Þar af voru 790 brenndir, eða ríflega tveir að jafnaði á dag.

Andrés spurði líka hversu margar umsóknir hafi borist árlega um að láta dreifa ösku utan kirkjugarða undanfarin fimm ár. Umsóknum um slíkt hefur fjölgað úr 18 í 38 á tímabilinu 2013 til 2018. Desembermánuður er ekki inn í tölunum fyrir 2018. 

Umsóknirnar þessi sex ár eru 158. Þar af eru 53 frá erlendum ríkisborgum sem ekki eru búsettir á Íslandi.

Andrés spurði líka hvort fyrirséð væri að aukið landrými þyrfti undir kirkjugarða, miðað við mannfjöldaspá og hlutfall duftgrafa. Ef duftgrafir verða helmingur allra grafa árið 2020 þá þarf að auka rými undir kirkjugarða um tæp 2% á Íslandi. Ef hlutfallið helst 50% til ársins 2050, þá þarf aukið landrými sem nemur tæpum 3% á þeim tíma.

Andrés spurði ráðherra hvort ástæða væri til að auka hlut bálfara. Fram kemur í svari ráðherra að hlutur bálfara aukist jafnt og þétt. Ekki sé ástæða til að ætla annað en að sú þróun haldi áfram. „Ráðherra telur ekki ástæðu til frekari opinberrar íhlutunar en nú er um jarðneskar leifar fólks.“